Útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:27:39 (3508)

2002-01-23 15:27:39# 127. lþ. 59.7 fundur 369. mál: #A útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ábendingar þeirra. Það er auðvitað rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að við verðum að vera í stakk búin til að ræða um þessa sorglegu atburði, þessi slys sem verða bæði á sjó og á landi. Við verðum auðvitað að halda vöku okkar og gera okkar besta með samstilltu átaki.

Hv. þm. minntist einnig í fyrirspurn sinni á nætursjónauka. Það mál er í skoðun. Reyndar hafa verið nokkuð skiptar skoðanir á því að hvaða gagni þeir komi og við hvers konar aðstæður. En þetta dæmi sýndi hins vegar greinilega að nætursjónauki getur komi að miklu gagni. Sjómannaskólinn í Reykjavík hefur þegar lagt til 13 millj. í kaupin og ég hef lofað 7 millj. þannig að við erum þá komin í 20 millj. af hugsanlegum kostnaði upp á 30 millj. Þannig er að þessir sjónaukar kosta í sjálfu sér ekki mikið heldur er þetta spurning um þjálfun á áhöfn sem þarf að sækja til útlanda. Þetta er spurning um sérstakan tækjabúnað, innréttingu í þyrluna o.s.frv. Þetta er því fremur viðamikið mál. En ég vona svo sannarlega að við sjáum það komast til framkvæmda fljótlega.

Varðandi þessar bifreiðar þá útiloka ég ekki að hægt sé að taka upp neyðarakstur. Ég vil þó benda á að það getur verið svolítið hættulegt og við verðum líka að hafa í huga að þar eru einkabílar í notkun.

Það er rétt hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að það þarf að fara yfir fjárhagsstöðu Landhelgisgæslunnar. Ég hef í hyggju að skipa sérstakan starfshóp til að fara yfir þau mál með aðild dómsmrn. og fjmrn., Landhelgisgæslunnar og jafnvel fleiri aðila. Það er ljóst að Landhelgisgæslan sér um ýmsa þjónustu, t.d. sjúkraflug. Það er spurning hvort athuga eigi með einhverjar greiðslur fyrir slíka þjónustu. Þetta er auðvitað vandmeðfarið en ég er alveg sammála því að skoða þurfi þetta sérstaklega, m.a. með hliðsjón af skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Öryggismál, slysamál og slysavarnir eru almennt í góðu horfi hér á landi en auðvitað verðum við alltaf að halda vöku okkar og athuga hvað við getum gert til að gera betur í þeim efnum.