Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 10:36:55 (3511)

2002-01-24 10:36:55# 127. lþ. 60.94 fundur 267#B heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[10:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fjármál Ríkisútvarpsins hafa verið hér til umræðu. Þau voru til umræðu við afgreiðslu fjárlaga, og á mínum vegum var unnin skýrsla um fjárhag í rekstri Ríkisútvarpsins sem var kynnt fyrir þingmönnum. Mönnum var ljóst hvernig fjárhag Ríkisútvarpsins er háttað og ekkert nýtt í því í sjálfu sér sem kom fram í máli hv. þm.

Það sem ég hef gert á undanförnu rúmu ári er að heimila Ríkisútvarpinu að hækka afnotagjöld sín um 14% í tveimur áföngum og þar með hefur fjárhagslegt svigrúm stofnunarinnar verið bætt. Á þessu ári er gert ráð fyrir að stofnunin hafi 2,8--3 milljarða kr. í tekjur og til ráðstöfunar í starfsemi sinni.

Ég hef margoft lýst því yfir í umræðum á þingi um málefni Ríkisútvarpsins á undanförnum árum að ég skipti mér ekki af einstökum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins, hvorki íþróttum, fréttum né öðrum þáttum sem Ríkisútvarpið ákveður að sýna eða sinna sérstaklega. Það er verkefni starfsmanna Ríkisútvarpsins að forgangsraða innan þess og ákvarða hvernig ráðstöfunarféð er nýtt. Einnig veit ég að útvarpsráð hefur fjallað sérstaklega um heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu, og eftir því sem ég kemst næst hefur ráðið ekki lokið þeirri umfjöllun. Það er ekki aðeins hér á landi heldur víða um lönd sem menn standa frammi fyrir breyttum aðstæðum varðandi þá samninga sem útvarpsstöðvar þurfa að gera um kaup á þessu dagskrárefni sem hv. þm. vakti máls á. Það er fyrirtæki í Þýskalandi sem á sýningarréttinn og mönnum finnst víðar en hér að mjög hátt verð hafi verið sett upp fyrir þennan rétt og að óaðgengilegt sé fyrir sjónvarpsstöðvar að ganga að þessum samningum sem fyrirtækið vill gera. Ég lít þannig á að þessum samningum sé ekki lokið af Íslands hálfu, það hefur ekki verið bundinn endi á samningaviðræðurnar og það er svo um fleiri lönd að menn eru enn að semja við þennan aðila um sín mál og átta sig á því hvort unnt verði að ná viðunandi samkomulagi. Útvarpsstöðvarnar standa frammi fyrir erfiðu viðfangsefni víðar en hér. Það er því ekki bundið við Ísland, og þess vegna ekki hægt að lýsa því sérstaklega yfir að fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins valdi þessu hér á landi frekar en í öðrum löndum nema hv. þm. hafi vitneskju um það að almennt hafi verið illa staðið að því að heimila ríkisstöðvum víðar en hér að hækka afnotagjöld sín eða gera aðrar ráðstafanir varðandi fjármál. Þetta mál er ekki þannig vaxið að einvörðungu sé um innlent viðfangsefni að ræða heldur er þetta alþjóðlegt viðfangsefni sem stöðvar eru að glíma við.

Ég teldi skynsamlegt fyrir þær stöðvar sem standa að sjónvarpsrekstri hér á landi að þær tækju höndum saman og reyndu sameiginlega að ná samningum við söluaðila efnisins eins og gert hefur verið víða annars staðar. Það er hægt að fara yfir það og lýsa hvernig sú þróun hefur verið. Þetta er viðfangsefni sem á að leysa eins og það hefur verið sett upp, á viðskiptalegum forsendum, og um það þarf að ná samkomulagi. Ég hef þær upplýsingar að menn séu enn að leita leiða hér á landi til að ná þessum samningum. Hvort það tekst eða ekki ætla ég ekki að fullyrða neitt um.

Varðandi fjármál Ríkisútvarpsins að öðru leyti og sérstaklega sem hv. þm. nefndi, Sinfóníuhljómsveit Íslands og lífeyrisskuldbindingar, er ljóst að afnotagjöldin hafa hingað til verið miðuð við að Ríkisútvarpið stæði undir kostnaði með þessum hætti við rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar. En þetta er eitt af þeim málum sem sjálfsagt er að skoða, fara yfir og fjalla um í framhaldi af þeirri skýrslu sem var unnin. Jafnframt tel ég að líta eigi á lífeyrisskuldbindingarnar. Ég hef lagt það til, og oftar en einu sinni í þessum sal, að afnotagjaldakerfið yrði afnumið og það kerfi tekið upp að Ríkisútvarpið yrði á fjárlögum ríkisins. Þar með yrði tekin um það ákvörðun hér á þessum stað við afgreiðslu fjárlaga hvaða fjármunir rynnu til Sinfóníuhljómsveitarinnar og hvaða fjármunir til Ríkisútvarpsins og hvernig staðið yrði að þessum lífeyrisskuldbindingum sem á Ríkisútvarpinu hvíla. Ég tel að þessi tillaga, sem ég hef oftar en einu sinni hreyft hér og tel tengjast endurbótum á Ríkisútvarpinu almennt, komi til með að leysa til frambúðar þetta sem hv. þm. nefndi.