Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 10:42:13 (3512)

2002-01-24 10:42:13# 127. lþ. 60.94 fundur 267#B heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[10:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið að það sé rétt og eðlilegt að Ríkisútvarpið leitist við að tryggja útsendingar á vinsælum íþróttaviðburðum eins og Ólympíuleikum og heimsmeistarakeppni í vinsælum íþróttagreinum eins og knattspyrnu. Ég minni á að það er rætt um þessi mál í nýsettum útvarpslögum þar sem sett eru ákvæði sem eru til þess ætluð að leitast við að tryggja möguleika á útsendingu af þessu tagi. Þau ákvæði eiga uppruna sinn í samþykktum Evrópusambandsins og ég vísa mönnum á þau lög og umræður um það mál til glöggvunar í þessu efni og til áréttingar á að það þyki eðlilegt og viðurkennt viðhorf að aðgengi almennings að vinsælum atburðum eins og íþróttaatburðum sé tryggt. Meðal annars hefur komið til tals að þetta ákvæði ætti að tryggja útsendingu á landsleikjum viðkomandi þjóðar en þó er ekki víst að það gangi svo langt að tryggja slíkt.

Ég tek þó einnig undir með hæstv. menntmrh. um að menn verði líka að líta á það að hér er að hluta til um viðskiptalegt mál að ræða þar sem útsendingarréttur gengur kaupum og sölum. Það er ekki hægt að gefa út fyrir fram yfirlýsingar um að menn gangi að öllum kröfum og skilmálum þeirra aðila sem hafa þann rétt undir höndum því að setja verður skorður við því að þeir geti knúið fram verð að eigin vali.

Ég vil, herra forseti, hvetja hæstv. ráðherra til að huga áfram að þessu máli og nýta til þess ákvæði í útvarpslögum sem sett voru í fyrra að frumkvæði hæstv. menntmrh.