Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:04:26 (3521)

2002-01-24 11:04:26# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta GHall
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 548 er nál. frá meiri hluta samgn. Nefndin hefur fengið á sinn fund fjölmarga aðila og farið yfir tillögur.

Megintilgangur þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar er að styrkja eftirlitsvald Flugmálastjórnar Íslands þannig að hún fái betur sinnt því eftirlitshlutverki sem henni er ætlað með það að markmiði að auka öryggi í flugi. Í þessu skyni er m.a. lagt til að þvingunarúrræðum stofnunarinnar verði fjölgað. Þá eru ákvæði laganna um flugvernd styrkt en mikil áhersla hefur verið lögð á þann þátt flugöryggismála á alþjóðavettvangi eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september sl.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að í stað ,,framkvæmdastjóra`` í 3. og 15. gr. frumvarpsins komi: ábyrgðarmaður. Hér er um að ræða þýðingu á orðinu ,,accountable manager`` og er þessi orðnotkun betri í þessu tilfelli. Óeðlilegt er að gera þá kröfu að framkvæmdastjóri sem ekki er jafnframt ábyrgðarmaður standist prófraun, samkvæmt ákvæðinu.

2. Óeðlilegt er að Flugmálastjórn geti fellt viðurkenningu sína skv. 2. efnismgr. 3. gr. og 15. gr. niður hvenær sem er og án fyrirvara eða sérstakra ástæðna. Meiri hlutinn leggur því til að orðin ,,sem getur hvenær sem er fellt viðurkenningu sína úr gildi`` í þessum ákvæðum verði felld brott og í stað þeirra komi nýr málsliður er orðist svo: Komi í ljós að kunnátta eða hæfni fyrirsvarsmanns sem hlotið hefur viðurkenningu sé ábótavant eða fyrirsvarsmaður brýtur trúnað við Flugmálastjórn getur hún fellt viðurkenningu sína úr gildi.

3. Í 3. og 16. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Flugmálastjórn skuli svipta leyfishafa leyfi til bráðabirgða gerist hann brotlegur gagnvart lagaboði eða öðrum fyrirmælum sem um starfsemina gilda. Það verður að teljast í hæsta máta óeðlilegt að Flugmálastjórn sé skyldug til að svipta alla leyfi til bráðabirgða sem brjóta einhverja þá reglu eða fyrirmæli sem hér um ræðir óháð því hversu alvarlegt brotið er. Hér hlýtur að koma til mat af hálfu Flugmálastjórnar um það hvort brot sé þess eðlis að bráðabirgðasvipting sé nauðsynleg. Meiri hlutinn leggur því til að í stað þess að kveða á um að Flugmálastjórn skuli svipta sé kveðið á um að Flugmálastjórn ,,geti svipt`` aðila leyfi telji hún brot þess eðlis. Sams konar breyting er gerð í 4. efnismgr. 8. gr.

4. Meiri hlutinn leggur til að nánar sé kveðið á um efni flugverndaráætlana í 10. gr., en rétt þykir að viðbrögð við ólögmætum aðgerðum gegn öryggi flugsamgangna og gerð neyðaráætlana séu tiltekin meðal annarra þátta í ákvæðinu sem flugverndaráætlun eftirlitsskyldra aðila skal innihalda.

5. Lagt er til að ráðherra skuli áður en hann setur reglugerð skv. 2. efnismgr. 14. gr. frumvarpsins hafa samráð við Persónuvernd. Þessi áskilnaður er gerður til að það sé tryggt eins og kostur er að ýtrustu varfærni sé gætt þegar persónuupplýsingar eru annars vegar. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að kveðið verði á um það í reglugerðinni hvaða aðilar teljist vera viðkomandi í skilningi 3. efnismgr. 14. gr. frumvarpsins og leggur hann áherslu á að það verði gert.

6. Lögð er til breyting á 141. gr. laganna. Lagt er til að refsiákvæði laganna verði víkkað út þannig að brot á settum eða gefnum fyrirmælum samkvæmt lögunum verði gerð refsiverð. Með þessu verður tilvísun 5. og 6. gr. frumvarpsins til 141. gr. óþörf. Til samræmis við þetta er ákvæði 5. gr. frumvarpsins stytt og einfaldað og síðari efnismálsgrein 6. gr. frumvarpsins felld brott.

7. Þá telur meiri hlutinn að 3. málsl. 2. efnismgr. 8. gr. eigi betur heima í bráðabirgðaákvæði. Ákvæðið verður merkingarlaust eftir að frestur samkvæmt ákvæðinu er liðinn. Sams konar ákvæði er í 3. málsl. 2. efnismgr. 9. gr. um flugstöðvar og er lagt til að því verði einnig breytt í bráðabirgðaákvæði. Meiri hlutinn leggur jafnframt til að frestur til handa flugvöllum og flugstöðvum sem starfræktar eru við gildistöku laganna verði tvö ár frá gildistöku laganna í stað eins árs eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Undir nefndarálitið rita sá er hér stendur, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir.