Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:10:16 (3522)

2002-01-24 11:10:16# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:10]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að þetta mál var afgreitt úr nefnd í mikilli andstöðu við minni hlutann og það var mat okkar að það hefði alls ekki fengið þá vinnu í nefndinni sem nauðsynlegt hefði verið. Kallaðir voru til gestir og gáfu þeir skýrslu, við fengum einnig fjöldann allan af skriflegum athugasemdum og ábendingum en að mínu mati, herra forseti, vann nefndin sem slík í heild sinni ekki nægilega úr þeim ábendingum og athugasemdum sem þar komu fram. Ekki síst þar sem þetta eru lög sem hér er verið að setja sem varða mjög mikilvæg öryggisatriði og öryggismál í einum stærsta og mikilvægasta málaflokki landsins sem flugþjónustan er. Þetta lýtur að ráðgjöf og þjónustu, eftirliti og viðurlögum og öryggismálum öllum. Ég harma að málið skuli ekki hafa farið aftur til nefndarinnar áður en það kom til 2. umr. úr því að það var ekki afgreitt sem slíkt fyrir jól. Og ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem enn hefur orðið um öryggismál í flugi á síðustu mánuðum sem lýtur að heilbrigðiseftirliti og leyfum til flugstjóra til þess að fljúga. Því leyfi ég mér að spyrja hv. framsögumann og formann samgn.: Mun hann beita sér fyrir því að málið komi aftur til samgn. milli 2. og 3. umr. þannig að hægt sé að fara betur yfir málið?