Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:40:04 (3528)

2002-01-24 11:40:04# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einu sinni svo að það er alveg sama hvaða lagareglur við setjum eða hvernig við afgreiðum frv. frá hinu háa Alþingi, að það kemur alltaf í hlut einhverra að framkvæma þessi lög. Ella virka þau ekki. Ella hafa þau enga vigt í samfélaginu.

Í þessu tilviki hefur komið fram tvenns konar gagnrýni á þetta frv. Í fyrsta lagi hefur stofnunin mjög verið gagnrýnd, Flugmálastjórn, fyrir að þannig hátti til í flugheiminum að hún njóti ekki lengur trúnaðartrausts. Það er nákvæmlega sú stofnun sem Alþingi ætlar, verði þetta frv. að lögum, að fela mikið og aukið vald frá því sem nú er. Á þetta hefur verið bent.

Í öðru lagi vekja margar umsagnir eftirtekt á því að þessar víðfeðmu valdheimildir eru mjög vandmeðfarnar og þær eru oft og tíðum miklu víðfeðmari en þekkist í nokkrum lögum. Nú um nokkurt skeið hefur það verið regla og hefur verið þróun hér að menn reyna að komast hjá því sem var allsráðandi á árum fyrr að sami aðili rannsaki, framkvæmi og dæmi og kveði upp niðurstöðu í einu og sama málinu. Á þetta hefur verið bent.

Athugasemdir hafa einnig verið gerðar við margt annað. Þess vegna var það skoðun okkar í minni hlutanum að skoða þyrfti málið miklu betur, fara yfir þetta. Við þekkjum þá umræðu sem hér hefur farið fram. Við þekkjum þá gagnrýni sem hefur komið fram og í því ljósi hefði ég haldið að miklu skynsamlegra væri að menn reyndu að afgreiða þetta mál í sátt, að menn reyndu að afgreiða þetta mál samstiga, að hér á hinu háa Alþingi reyndu menn að stuðla að því að á ný ríkti traust milli aðila í þessum geira.