Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:42:24 (3529)

2002-01-24 11:42:24# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:42]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að fjalla um alvarlegt mál sem lýtur að öryggismálum flugfarþega, þeirra sem ferðast með þessum farartækjum. Það er eðlilegt að lögum sé breytt í samræmi við það sem gerðist og m.a. er vitnað til alvarlegra atburða í Skerjafirði og þess alvarlega atburðar sem varð 11. september sl. Ég sé ekki hvernig menn ætla að tengja málið og vinnslu nefndar á þann hátt að taka inn hina mórölsku hlið málsins sem snýr ekki að efnisatriðum laganna sem við erum að fjalla um, heldur um það sem mönnum hefur misþótt við Flugmálastjórn. Eðlilega hljóta að vakna deilur á milli flugrekenda og Flugmálastjórnar sem gengur hart eftir því að öryggis sé í hvívetna gætt. Ekkert er óeðlilegt við það. Og þegar menn svo setjast niður með sinn frjálsa penna til að senda samgn. álit sitt þá er í minna mæli talað um lögin sjálf en sífellt klifað á því að Flugmálastjórn sé óalandi og óferjandi. Hvaða ástæður skyldu liggja þar að baki? Ætlar þá ekki nefndin, líka minni hlutinn, að gera kröfu um að farið verði ofan í einstök mál, hvert einasta mál þar sem menn deila á Flugmálastjórn vegna þess kannski að þeir eru ósáttir við að fyllsta öryggis sé gætt og krafa gerð til þess?