Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:53:38 (3536)

2002-01-24 11:53:38# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:53]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við það sem fram hefur komið í því nál. sem við hv. þm. minni hluta samgn. höfum sett á blað og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fór mjög vel yfir áðan.

Hins vegar ætla ég að segja, vegna þeirrar umræðu sem nú hefur verið um málið, að það rifjaðist upp fyrir mér að í látunum rétt fyrir jól, þegar við vorum að vinna þetta mál á lokadögum þingsins, var boðað til fundar í hv. samgn. þar sem ég bókaði og gerði athugasemdir. Þær voru bæði við fundarboðið, vegna þess að það kom ekki fram í því að þetta mál væri á dagskrá og að taka ætti það út úr nefnd, og mig minnir að við höfum látið bóka að við lýstum yfir andstöðu okkar við að þetta mál yrði þá tekið út úr nefnd vegna þess að ég vildi, og taldi mig tala þar fyrir munn hv. minnihlutamanna, ræða þetta mál frekar, einmitt vegna gagna sem höfðu komið inn á síðustu dögum og nefni ég þar t.d. bréf frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, vegna þess að síðan gerðist það á síðustu dögum þingsins fyrir jól að þetta mál var tekið út af dagskrá og ekki klárað fyrir jól. Ég hafði reyndar sagt við 1. umr. þessa máls að það þyrfti að ræða frekar eftir heimsóknir og bréf frá ýmsum flugrekendum sem komu til fundar við okkur. Ég neita því algerlega að ég hafi með tali mínu ætlað að tefja þetta frv. Það sem er kannski aðalatriðið --- og ég vildi hnykkja aðallega á og kom fram við 1. umr. um þetta mál frá mér --- var að ég taldi mjög mikilvægt að bíða eftir hinni óháðu rannsókn Bretanna tveggja, sem ég kann ekki segja hvað heita, en þeir eru að vinna fyrir aðstandendur flugslyssins í Skerjafirði. Þá stóð til að sú skýrsla kæmi í lok desember. En eins og margoft hefur komið fram hefur það hörmulega slys auðvitað blandast mjög oft inn í þetta mál, og flugöryggismálin hafa verið miklu meira rædd eftir þetta sorglega slys en áður.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, herra forseti, með því að fara yfir það atriði. Ég veit ekki almennilega hvernig staðan er varðandi þá skýrslu sem þarna á að koma en eins og ég segi, þetta eru óháðir rannsóknaraðilar, þeir færustu í Bretlandi sem hægt var að finna í þetta mál, og auðvitað hefðum við átt að bíða og sjá þá skýrslu og þær tillögur sem koma frá þeim aðilum áður en við klárum þetta frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir eins og hér er verið að ræða.

Hér hefur komið fram, herra forseti, hjá hv. nefndarmönnum í samgn. að þetta sé grafalvarlegt mál, og það er það sannarlega. Öll viljum við stuðla að því að það lagaumhverfi sem við setjum og þær breytingar sem við erum að gera séu til þess að við göngum eins langt og við teljum okkur geta og séum að fullskapa í raun og veru, þótt það verði kannski aldrei endanlegt, lagagrunn og annað til þess að fjalla um flugöryggismál.

Ég endurtek það, herra forseti, að ég vildi aðeins rifja hér upp að fyrir jól var þetta gert á þennan hátt. Á þessum fundi gat ég um það að ég væri mjög ósáttur við að þetta mál væri þá tekið út úr nefnd sem hins vegar meiri hlutinn gerði.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu.