Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:58:24 (3537)

2002-01-24 11:58:24# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram þó að hún sé misjafnlega málefnaleg, verð ég að segja. En samgn. fjallaði um frv. og vann það að mínu mati með eðlilegum hætti eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, formanni samgn., enda kemur fram í nál. bæði minni og meiri hluta hv. samgn. að ítarlega hefur verið fjallað um þetta mál í nefndinni.

Aðeins vegna þess að mér finnst gæta allmikilla sleggjudóma, ekki síst hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni í garð Flugmálastjórnar, held ég að menn verði að átta sig á því að í frv. sem hér er til umfjöllunar, eins og hv. formaður samgn. hefur ítrekað bent á, er ekki verið að fjalla sérstaklega um innviði stofnunarinnar heldur verið að leggja á ráðin um þær reglur og það lagaumhverfi sem við ætlumst til að þeir sem sinna flugi og flugrekstri fari eftir, og flugmálayfirvöld, í þessu tilfelli Flugmálastjórn, hafi eftirlit með því. Þetta er nauðsynlegt að taka fram.

[12:00]

Aðeins vegna þess að reynt hefur verið að draga fram að mikil gagnrýni hafi komið á frv. verð ég að segja að auðvitað koma alltaf athugasemdir við frumvörp, ekki síst þau sem snúa að ýmsum atvinnustéttum. Þar eru að sjálfsögðu í gangi margvíslegir hagsmunir sem menn vilja fjalla um og koma á framfæri athugasemdum við. Það er því ekkert óeðlilegt að fram komi ábendingar og athugasemdir við frumvörp.

En vegna þess sem hér hefur verið rætt um og vísað til athugasemda vil ég leyfa mér að vitna í bréf frá fulltrúum Flugskóla Íslands hf. sem sent var samgn. þingsins. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Að gefnu tilefni vilja undirritaðir, sem fyrir hönd Flugskóla Íslands hf. sendu til samgöngunefndar Alþingis umsögn á frumvarpi til breytinga á lögum um loftferðir, skýra nánar út einstök efnisatriði í áðurnefndri umsögn sinni. Þessum útskýringum er ætlað að gera málsaðilum skýrar grein fyrir afstöðu skólans til framkvæmdahliðar þessara fyrirhuguðu breytinga á lögum um loftferðir sem og að leiðrétta þann misskilning og/eða mistúlkun meðal málsaðila sem birst hefur að undanförnu, m.a. í fjölmiðlum.

Hvað varðar sjálfar breytingarnar á lögum um loftferðir vill Flugskóli Íslands hf. ítreka þá skoðun sína sem fram kemur í umræddri umsögn að frumvarpið ,,sé í heild sinni til bóta á gildandi lögum um loftferðir``.

Undirrituðum þykir miður ef ákveðnir hlutar umsagnar skólans á þessu lagafrumvarpi hafa verið notaðir af einstökum aðilum til þess að þæfa afgreiðslu málsins á Alþingi. Nauðsynlegar bætur og lagfæringar á lögum um loftferðir, sem viðkoma eins alvarlegu máli og flugöryggi er, ættu að vera hafnar yfir allt dægurþras og pólitík og hljóta skjóta og vandaða málsmeðferð allra þeirra aðila sem að slíku máli koma.

Þeir sem þverskallast við að taka þátt í slíku ferli og/eða vilja nota framkomnar áhyggjur við framkvæmd laganna í annarlegum tilgangi dæma sig og sína sjálfir.``

Ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að m.a. hefur verið reynt að gera umsagnir tortryggilegar og reynt að koma því inn í umræðum í þinginu að nánast allir sem koma að þessu máli og hafa veitt umsagnir hafi lagst gegn því. En það hefur komið alveg skýrt fram hvernig þeir líta á það hjá Flugskóla Íslands hf.

Ég vil aðeins, herra forseti, víkja að því --- ég átta mig ekki á hvers vegna rauða ljósið blikkar.

(Forseti (ÁSJ): Forseti biður hæstv. samgrh. afsökunar. Það er bilun í tímakerfinu hjá okkur.)

Frv. sem er til umfjöllunar snýst um fjölmörg atriði og ég vil aðeins rifja þau upp til að undirstrika um hversu mikilvægt mál er að ræða. Í fyrsta lagi er verið að fjalla um að skýra og styrkja stöðu Flugmálastjórnar hvað varðar eftirlitsvald og úrræði Flugmálastjórnar til þess að fylgja eftir þeim reglum sem settar eru og flugrekendur og flugmenn og allir aðrir sem að fluginu koma þurfa að sæta. Hvers vegna skyldu þingmenn leggjast gegn því? Það væri gott að fá skýringar á því. Við viljum á Íslandi að hér séu klárar og skýrar reglur og að farið sé eftir þeim. Flugmálastjórn þarf að hafa stöðu og styrk til þess að geta fylgt þeim reglum eftir. Út á það gengur einn meginkafli frv.

Í annan stað erum við að leggja á ráðin um hvernig við getum tryggt öryggiseftirlit með flugvöllum og flugstöðvum. Við erum að koma inn í nýja veröld þar sem hlutirnir hafa breyst mikið eftir 11. september. Þess vegna viljum við setja skýrar reglur, mun skýrari en hafa verið, um hvernig eigi að reka flugvelli og flugstöðvar á Íslandi þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Um það er fjallað í frv. Eru menn tilbúnir til þess að leggjast gegn því? Ég vona ekki.

Í þriðja lagi er fjallað um flugvernd. Eftir 11. september er mikil umræða í flugheiminum um hvernig við getum tryggt flugverndina, hvernig farþegar með fluginu geti verið öruggir á ferðum sínum. Við erum að undirbúa, m.a. á grundvelli þessa frv. og væntanlegra laga, flugverndaráætlun sem tekur á því hvernig við viljum standa að öryggi í fluginu. Sú flugverndaráætlun hefur fengið umfjöllun innan flugheimsins og það eru allir sem fagna framgangi þeirrar breytingar sem hún felur í sér.

Í fjórða lagi er fjallað um svokallaða flugdólga en því miður er öryggi í flugi stundum ógnað vegna þess að með flugvélum eru einstaklingar sem valda vandræðum. Til þess að skapa klárar reglur og klár skilyrði fyrir flugrekendur til að taka á slíkum málum eru sett ákvæði inn í lög samkvæmt frv.

Í fimmta lagi er í frv. fjallað um niðurfellingu flugleiðsögugjalds sem hefur verið töluvert um rætt, en vegna þess að frv. tafðist í afgreiðslu fyrir jól hefur slík heimild ekki verið til staðar. Hins vegar, eins og kom fram í umræðum áður, geri ég ekki ráð fyrir öðru en að það muni verða látið virka aftur fyrir sig. Engu að síður erum við að fjalla um að þessi ákvæði séu skýr, að fella niður hið svokallaða flugleiðsögugjald innan lands.

Þetta eru, herra forseti, þau meginatriði sem við erum að fjalla um. Ég held að þegar hv. þingmenn setja sig í stellingar löggjafans og skoða þessi mál af sanngirni sameinist þeir um að afgreiða þetta mál þannig að það verði ekki fyrir frekari töfum. En auðvitað á ekki að tala um tafir, það er eðlilegt að við ræðum mál en ég geri þá kröfu að menn séu sæmilega sanngjarnir í þeirri umfjöllun.