Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:16:10 (3543)

2002-01-24 12:16:10# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:16]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar hv. þm. kristallaði mjög rækilega þann vanda sem flugmálayfirvöld standa frammi fyrir, þ.e. þegar hann vitnaði í athugasemdir tiltekins flugfélags. Það kemur fram í þessari athugasemd að viðkomandi flugfélag kvartar undan því að Flugmálastjórn skuli vera fært í hendur vald til þess að geta framfylgt reglum sem eru settar.

Þarna þarf auðvitað að gæta hófs, fara hinn gullna meðalveg. En hv. þm. gerir kröfu til þess að Flugmálastjórn hafi aðstöðu til þess að leiðbeina og leiða væntanlega viðkomandi flugfélag inn á réttar brautir án þess að hafa neitt vald til þess að láta framfylgja regluverkinu. Við stöndum frammi fyrir þessum vanda.

Ég held að aðalatriðið sé að reglurnar sem flugrekendur þurfa að fara eftir séu mjög skýrar og klárar og að raunverulegur möguleiki sé fyrir eftirlitsaðilann að fylgja fram þeim reglum sem eru settar. Og vel að merkja, til þess að ekkert fari á milli mála, þá eru þær reglur sem framfylgt er gagnvart litlu flugfélögunum svokallaðar JAR-reglur og nokkur flugfélög þurftu að stoppa í sumar vegna þess að þau uppfylltu ekki þær kröfur sem eru settar. Hins vegar tókst þeim að koma því öllu saman í lag og í dag gilda þessar reglur og ég heyri ekki annað en að um það sé bærileg sátt. En auðvitað þarf að framfylgja þeim og tryggja að framvegis verði farið eftir þeim. Til þess er þetta frv., að styrkja þann möguleika sem Flugmálastjórn verður að hafa til þess að framfylgja reglum.