Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:18:24 (3544)

2002-01-24 12:18:24# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég kann ekki við að hæstv. ráðherra sé að gera mér upp skoðanir, þ.e. að ég vilji ekki hafa hér flugöryggi og að tök séu til að fylgja því eftir og jafnframt þjónustu og ráðgjöf.

Þessi umræða hér sýnir bara að hún átti að fara fram í samgn. Þessi umræða átti að fara fram í samgn. en fór ekki fram þar.

Ég ítreka það og tek undir með hæstv. ráðherra að öryggismál í flugi er mikið og stórt mál. Þess vegna á að vinna það af miklu meiri vandvirkni og miklu meiri samviskusemi í samgn. en ekki taka það út svona hroðvirknislegt eins og raun bar vitni, þ.e. eins og hv. þm. Kristján Möller upplýsti hér, en það var tekið út í bakherbergi án þess að vera sett þar einu sinni á dagskrá. Full ástæða er til þess að flugöryggismál séu unnin vel og reynt að skapa um þau eins mikla sátt og kostur er. Ég hygg að fyrir hæstv. samgrh. ætti það kannski ekki síður að vera áhersluatriði þessa dagana.