Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:24:05 (3548)

2002-01-24 12:24:05# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:24]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls í þessari umræðu en vegna ræðu hæstv. ráðherra og fullyrðinga sem þar komu fram sá ég mér ekki annað fært en að fjalla um nokkur atriði sökum þess að ekki gafst tími til þess í stuttu andsvari.

Ég held að það yrði nú til þess að æra óstöðugan að fjalla um þá umræðu sem fram hefur farið eftir hið hörmulega slys í Skerjafirði og ekki er ástæða til þess að gera það hér. Hins vegar held ég að öllum sé í fersku minni hvernig hæstv. samgrh. hefur tekist á við þá umræðu og hvernig honum hefur vegnað í þeirri umræðu. Af þeim sökum m.a. setti ég fram þá skoðun í ræðu minni, og hún kemur einnig fram í áliti minni hlutans, að þessi viðbrögð sem við sjáum hér séu að mörgu leyti krampakennd viðbrögð við tiltekinni stöðu.

Þegar reynt er að rýna í þau grundvallarrök, þá hugsun sem býr að baki því að þetta frv. er lagt fram þá er þau rök að finna í greinargerðinni. Þar er vitnað í tvennt. Annars vegar er vitnað í umrætt slys og hins vegar er vitnað til þess að Flugmálastjórn hafi í nokkrum tilvikum verið gerð afturreka fyrir dómstólum. Þetta eru þau grundvallarrök, þ.e. undirstaðan fyrir því að farið er af stað með þessar breytingar.

Rétt er líka að halda því til haga að ýmislegt í þessu er til bóta. Ég vil halda því skilmerkilega til haga og ætla svo sem ekkert að fjalla frekar um það. En ég hef sagt að þessi viðbrögð sem felast í auknum refsi- og viðurlagaheimildum Flugmálastjórnar séu krampakennd. Eins og ég rakti í máli mínu er einungis hægt að tala um að Flugmálastjórn hafi verið gerð afturreka í þrígang. Eitt tilvikið laut að sönnunarskorti og hin tvö lutu að því, ef marka má þær heimildir sem hægt er að líta til, að röksemdafærsla þeirra sem voru sakaðir um að haga sér eins og flugdólgar, ef svo má að orði komast og eins og hæstv. ráðherra gerði í sinni ræðu, var einfaldlega slík að héraðsdómur taldi hana duga til þess að hnekkja ákvörðun Flugmálastjórnar. Hér var einfaldlega um það að ræða að fram fór rökræða fyrir dómstólum um það hvor hefði meira til síns máls.

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með einum umsagnaraðila um að ekkert af því sem þarna gerðist hafi átt sér stað sökum þess að skort hafi refsi- eða sviptingarúrræði. Málið er því fyrst og fremst hvernig menn fara með vald sitt og sitt eftirlit.

Hæstv. ráðherra bar það síðan upp á minni hlutann að hann væri hér eiginlega, ef marka má ráðherrann, að reyna að tefja málið, þvælast fyrir, vera með málþóf o.s.frv.

Grundvallarröksemdafærsla okkar er sú að það sem hér er að og þau vandamál sem hafa verið til staðar eigi rætur sínar í því að hlutverk Flugmálastjórnar er tvenns konar, sem er ósamrýmanlegt, þ.e. annars vegar er þeim ætlað að ganga erinda og vera til leiðsagnar þeim sem stunda flug og flugrekstur og hins vegar að hafa með þeim eftirlit og tryggja öryggi. Oft og tíðum og oftast fara þessir hlutir ekki saman. Því höfum við lagt til að skipta þessu upp og það kemur fram í áliti okkar. Hins vegar er það rétt hjá hæstv. ráðherra að við höfum ekki lagt það til í neinni tæknilegri útfærslu. En mér fannst á hæstv. ráðherra að honum hugnaðist það svo sem ekkert illa að það yrði gert. Ég get sagt það hér fyrir hönd minni hlutans að við erum tilbúnir að aðstoða ráðherra við þá vinnu, tilbúnir að leggja okkur alla fram til þess að aðstoða ráðherra til að hægt sé að koma þessum hlutum í það horf sem við höfum lagt til. Hæstv. ráðherra ræður því þá hvort hann þiggur þá aðstoð eða ekki. Við erum tilbúnir til þess.

En hæstv. ráðherra getur ekki komið hér upp og sagt að við höfum ekkert til málanna að leggja, við höfum engar hugmyndir eða nokkurn skapaðan hlut. Það er einfaldlega ekki sanngjarnt. Þó að ég telji mig kannski ekki þess umkominn líkt og ráðherra að setjast í dómarasæti og fjalla um hvað sé málefnalegt og hvað ekki í þessari umræðu þá vil ég halda því fram, virðulegi forseti, að þessi röksemdafærsla hæstv. ráðherra hafi ekki verið mjög málefnaleg.