Skráning skipa

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:53:42 (3551)

2002-01-24 12:53:42# 127. lþ. 60.3 fundur 285. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:53]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég minnist þess að líklega eru 20 ár síðan mikið var farið að tala um svokallaða þurrleigu kaupskipa þegar þau fóru fyrst að sigla til Íslands. Síðan upplifðu menn það að íslenskar kaupskipaútgerðir fóru að taka skip á svokallaðri þurrleigu og þá höfðu menn nú ekki trú á því að það mundi gerast í íslenska fiskiskipastólnum að svo mundi fara sem hér er lagt til og verið að ræða um.

Hins vegar hafa nú orðið á ekki lengri tíma svo miklar breytingar á rekstri og útgerð skipa, eignarhaldi á þeim o.s.frv. að líklega verður ekki undan því komist að skoða þau mál alvarlega sem lúta að leigu og þurrleigu og hvernig menn ráði skipaflota. Er þar gleggst dæmi að horfa á íslenska kaupskipaflotann, hvernig fyrir honum er nú komið. Líklega er eitt lítið kaupfar undir íslenskum fána en samt hefur ekki dregið úr flutningum til og frá Íslandi frá því sem áður var þegar kaupskipin hafa líklega verið flest, um nærri 50.

Miklar breytingar hafa orðið. Skipum hefur fækkað. En þau hafa stækkað og um er að ræða mikla hagræðingu í rekstri skips hvað stærð áhafnar varðar, hraða o.s.frv. Nú er þetta að breiðast út í fiskiskipaflotanum og kannski er ekki við öðru að búast.

Hitt er svo annað mál sem aðeins kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að vissulega þarf að skoða og athuga margt í þessu þannig að ekki verði svo frá málum gengið að réttarstaða okkar Íslendinga verði með neinum hætti skert hvað áhrærir kröfu til veiða annars staðar, innan lögsögu annarra ríkja, eins og hér hefur komið fram, t.d. á Flæmska hattinum o.s.frv. Þær ábendingar sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. eru því mjög athyglisverðar og mjög gott innlegg fyrir samgn. sem mun fá þetta mál til umfjöllunar.

Fram kom að stéttarfélög sjómanna hafa sett sig upp á móti þessu máli. Auðvitað þarf að skoða hvernig á því verður haldið þannig að allir geti verið nokkuð sáttir. En ég legg afar mikið upp úr því sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar og ábendingum hans sem eru mjög athyglisverðar, þ.e. hvernig á því eigi að halda ef t.d. skráning breytist fyrirvaralaust í hafi, um réttarstöðu áhafnarinnar, líka um sjóveðskröfur o.s.frv.

Ég þakka það sem hér hefur verið lagt til þessa máls. Hæstv. samgrh. hefur vísað til samgn. og bent á það sem vissulega þarfnast athugunar. Ég vænti þess að málið muni fá afar vandaða umfjöllun í samgn. eins og öll önnur sem þar hafa fengið afgreiðslu fram að þessu.