Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:07:34 (3554)

2002-01-24 14:07:34# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:07]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ágætar undirtektir við þessum tillögum í frv. að lögum um samgönguáætlun sem hér er til meðferðar.

Tvennt vildi ég samt gera athugasemdir við í málflutningi hans. Annars vegar taldi hann skorta á áherslur hvað varðaði almenningssamgöngur. Eins og fram kemur í skýrslu stýrihópsins, sem er auðvitað partur af því sem hér er til umræðu þó það sé ekki þingskjal út af fyrir sig, er lögð skýr áhersla á almenningssamgöngur. Ég tel að í verkum mínum hafi ég sýnt það að ég legg áherslu á þær. Framlög, þ.e. styrkir til flugsins og til sérleyfishafa hafa aukist mjög mikið síðustu ár. Með því er auðvitað mörkuð stefna. Við höfum staðið í samningum við sérleyfishafa og fleiri til þess að tryggja framgang þessa. En í stýrihópstillögunum er fjallað um almenningssamgöngur og m.a. er meira að segja farið aðeins yfir járnbrautarmálefni sem hér hafa stundum verið til umræðu.

Hins vegar vil ég nefna það varðandi umhverfismálin að auðvitað verðum við að taka tillit til þeirra og leggja áherslu á að orkunýtingin sé sem hagstæðust fyrir okkur. Þróunin í eldsneytisnotkun bíla og skipa er okkur heldur hagstæð. Vélarnar batna stöðugt og uppbygging vegakerfisins hefur þar mjög mikil áhrif. Áform um að stytta leiðir er kannski mikilvægasta áherslan sem við getum sett fram í samræmdri samgönguáætlun hvað umhverfismál varðar.