Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:12:23 (3556)

2002-01-24 14:12:23# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að við þurfum að reyna að nýta þann flutningsmáta sem er hagstæðastur hverju sinni og jafnframt fyrir þjóðina sem heild. Þess vegna leggjum við, í hugmyndum okkar um samræmda samgönguáætlun, mikla áherslu á uppbyggingu hafnanna með tilliti til þess að strandflutningar, sjóflutningar, geti átt sér stað. Ég trúi því að þegar fram líða stundir og skattlagning vegna flutninga tekur t.d. meira mið af notkun vegakerfisins en er í dag, þá muni ýmislegt breytast sjóflutningum í hag.

Það vill svo til að á vegum nefndar sem skipuð er af samgrh., en jafnframt eru fulltrúar fjmrh., iðn.- og viðskrh. í þeirri nefnd, er skoðað hvernig við getum tryggt jafnræði í flutningum bæði þegar talað er um landflutninga og sjóflutninga, þ.e. hvernig þess verði gætt að með skattlagningu sé ekki gengið á rétt landflutninga eða sjóflutninga hverju sinni. Þetta þarf allt að skoða. En ég legg áherslu á að með því að leggja á ráðin um að byggja upp alla þætti samtímis, flug, hafnir og vegi, með tilliti til hagkvæmastrar niðurstöðu séum við á hinni réttu leið.

Aðeins vegna þess að hv. þm. nefndi í fyrri ræðu sinni að ofuráhersla væri lögð á að notendur borgi, þá er það ekki svo. Staðreyndin er hins vegar sú að notendur bíla greiða nánast alla uppbyggingu kerfisins í heild, flugs, hafna og vega. Engu að síður þarf að taka tillit til notkunarinnar.