Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:16:59 (3558)

2002-01-24 14:16:59# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom aðeins inn á nokkuð nýtt eftir að ég bað um orðið. En málið er einmitt það sem við gerum okkur kannski ekki alveg grein fyrir, nefnilega hin mikla umferð á vegum landsins eins og hann kom réttilega inn á í seinna andsvarinu. Það eru auðvitað kröfur nútímans um ferskleika, og fólk í hinum dreifðu byggðum vill fá nánast dagmerkta vöru þannig að hún sé ekki á síðasta degi þegar fólk er að kaupa hana í verslunum. Það kallar á flutninga á landi sem eðlilegt er.

Hitt áhrærir svo sjóflutningana. Ég hugsa að ekki geri allir sér grein fyrir því að þessir þungu flutningabílar með 40 feta gám aftan í eru að slíta vegum á við 10.000--30.000 fólksbifreiðar, og fer þá eftir veðurfari og því á hvers konar vegum bílarnir eru að keyra. Vegirnir hafa ekki verið byggðir upp með þetta að leiðarljósi. Það eru ekki mörg ár síðan algengt var að kaupskip færu inn á hafnir, jafnvel til að sækja eitt og tvö vörubretti af fiski. Nú er t.d. verið að keyra allt upp í 70 gáma á viku frá Neskaupstað til Eskifjarðar. Samskip eru með reglulegar brottfarir til útlanda með sjávarafurðir sem bílar hafa verið að safna allt í kringum landið í heila viku, eru í heila viku að keyra þessa gáma alls staðar að af landinu til Reykjavíkur. Og það hlýtur náttúrlega að vera mikið kappsmál fyrir stjórnvöld að koma sjóflutningum á aftur með tilliti til mengunar, eins og hv. þm. kom réttilega inn á. Skipin menga minnst, bílarnir mest. Það er því alveg augljóst að þetta er mál sem þarf að vinna að. Og þessi áætlun í samgöngumálum er mjög af hinu góða og nauðsynleg til þess að taka á málum. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti hér söguna og aðdragandann að þessu fögnum við auðvitað því sem hér er að gerast, þ.e. samræmd samgönguáætlun.