Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:19:19 (3559)

2002-01-24 14:19:19# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru auðvitað gamalkunnug rök sem menn hafa fært fram fyrir því að flutningarnir séu allir að færast upp á land, að krafa nútímans sé um meiri hraða og að vörurnar komist landshorna á milli á einum sólarhring. Það er auðvitað alveg rétt að það á við um dagvörur, neysluvörur, það á við um ýmsar léttavörur eins og varahluti og annað slíkt sem menn vilja fá hratt til sín. Og ég held að því verði auðvitað ekki mætt öðruvísi en með vel skipulögðu landflutningakerfi og/eða flugi eftir atvikum.

Ég held að grundvallarmistökin hafi verið þau að gefast upp gegn því að þungavaran þyrfti að fylgja með þessari léttavöru og dagvöru upp á land. Það er það sem hefur gerst. Og ég held að það sé alveg gríðarlega óhagstæð þróun og alvarleg í umhverfislegu tilliti hvað vegakerfið varðar, hvað varðar stöðu framleiðslustarfsemi á landsbyggðinni sem hefur fengið á sig stórhækkaðan flutningskostnað. Það er borðleggjandi, það vita allir. Og þó að þetta kerfi kunni að þjóna núverandi flutningsaðilum ágætlega sem hafa þetta allt innbyggt í einni púllíu, þessar tvær keðjur sem reka skipafélög, og landflutninga með, er ekki þar með sagt að þetta sé eina fyrirkomulagið.

Um 1990 voru þrír aðilar í strandsiglingum með líklega ein fimm, sex skip. Það var ekki skilvirkt kerfi, ekki hagkvæmt. En það var a.m.k. borðleggjandi þá og útreikningar sýndu að eitt samræmt strandsiglingakerfi hefði getað skilað ágætum arði. Staðið vel undir sér og skilað arði. Nú er líklega eitt skip eftir, eða eigum við ekki að segja að það sé í raun og veru eitt skip eftir? Og fyrir hvert skip sem hverfur af ströndinni bætast tíu, tólf svona lestir, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson var að nefna áðan, upp á vegina með tilheyrandi tugþúsundföldu sliti á við fólksbíla.

Þessi þróun er því mjög alvarleg og ég vona svo sannarlega að hún komist upp á borðið í umræðunni og áframhaldandi vinnu í þessu máli.