Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:21:32 (3560)

2002-01-24 14:21:32# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Svo stöndum við frammi fyrir því að nú er orðinn alvarlegur brestur í rekstri hafna og að hafnasamlög hafa verið stofnuð en samt sem áður hefur höfnum ekki fækkað. Menn eru enn að gera sömu kröfu til fjármagns til að halda við höfnum sem jafnvel gætu lagst af vegna þess að vegir hafa verið byggðir upp og jú, það er verið að flytja fisk frá Norðurlandi suður, og öfugt.

En það mál sem ég held hins vegar að þurfi auðvitað að skoða --- það er ekki svo einfalt að leysa þetta og segja: Jú, það er eðlilegt að öll neysluvara til neytenda hvar á landinu sem er hafi forgang og komi svo fljótt sem hægt er, og þá landleiðina --- í ljósi þessa er þungaskattur af þessum miklu bílum óeðlilega lágur. Það er alveg ljóst að það verður engin breyting á nema þungaskattinum verði breytt verulega og það þýðir auðvitað hærra vöruverð til neytenda úti á landi nema að menn ætli að taka upp tvöfalt eða þrefalt kerfi í þungaskattinum en það hlýtur að vera mjög erfitt og hljóma hálfankannalega. Ég held að við séum öll sammála um að leggja þurfi áherslu á að koma þessum þungaflutningum aftur sjóleiðina umhverfis landið. Það er stóra málið af tveimur ástæðum eins og hér hafa komið fram, vegna álags á vegi sem ekki hafa verið byggðir upp fyrir þessa þungaflutninga og ekki síður vegna mengunar.