Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:41:43 (3563)

2002-01-24 14:41:43# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur hér við þessa umræðu og raunar í fréttatíma Ríkisútvarpsins í morgun klukkan átta haldið því fram að verið væri að leggja á ráðin um að stórhækka þátt notenda í samgöngukerfinu. Ég veit ekki hvernig hv. þm. hefur komist að þeirri niðurstöðu eða hvaðan hann hefur það, því ekki er verið að leggja það til með frv. sem hér er til umfjöllunar og ekki er heldur nein slík tillaga til umfjöllunar í þinginu í dag. En það er rétt hjá hv. þm. sem kemur fram að í skýrslu stýrihópsins er vakin athygli á því að gera megi ráð fyrir því í framtíðinni að lögð verði meiri áhersla á að hver einstakur þáttur standi undir sér í samgöngukerfinu og í almenningssamgöngum o.s.frv. Engu að síður er gert ráð fyrir því að bjóða út flug og veita ríkisstyrki og veita styrki til ferjusiglinga.

En hv. þm. ætti að fletta upp á bls. 51 vegna þess að hann fullyrti að bíleigendur greiddu ekki verulegan part eða jafnvel meira en sem nemur öllum stofnkostnaði og rekstri vegakerfisins. Það er nú þannig að það eru 16 milljarðar umfram það sem fer til vegakerfisins sem bíleigendur greiða. Það er því nauðsynlegt að hafa það sem sannara reynist í þessu sem öðru.