Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:50:13 (3567)

2002-01-24 14:50:13# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um samgönguáætlun og frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl.

Ég vil eins og reyndar fleiri hv. ræðumenn fagna því að þessi mál eru komin til umræðu á hv. Alþingi. Það er löngu tímabært að lagt verði í að líta yfir samgöngumálin sem eina heild og samræma áætlanagerð og uppbyggingu að því leyti.

Þetta mál á sína forsögu eins og flestöll mál. Á Alþingi hafa verið fluttar tillögur um samræmingu áætlana allt frá því árið 1987 og síðast var samþykkt hér þáltill. árið 1998 þar sem kveðið var á um að fela samgrh. að skipa nefnd sem kanna skyldi hvort samræma megi gerð áætlana um uppbyggingu samgöngumannvirkja í eina samræmda samgönguáætlun og gera í framhaldi tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögum og reglum. Sá sem hér stendur var 1. flm. þeirrar tillögu, en auk mín fluttu tillöguna hv. þm. þáv. þingflokka --- reyndar hefur sú flóra breyst töluvert síðan --- en þeir voru Stefán Guðmundsson, Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Ástgeirsdóttir, Gísli S. Einarsson og Egill Jónsson.

Þess skal getið að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti tillögu í Alþingi 1987 um svipað efni og henni hafði verið vísað til ríkisstjórnar til umfjöllunar, en eitthvað gerðist nú lítið með það í framhaldinu.

Ef ég hleyp aðeins yfir helstu atriði greinargerðar þessarar tillögu svona sem inngang, þá var þar fjallað um áætlanir sem eru gerðar og hafa verið gerðar á einstökum sviðum samgangna og bent á að þar sé gætt lítils samræmis og ekki dregin upp heildstæð mynd af hlutunum við gerð þeirra áætlana. Í greinargerðinni var einnig bent á að með samræmingu þessara hluta mætti nýta betur fjármagn með markvissari hætti út frá heildstæðri áætlun. Farið hefur verið yfir það hér í umræðunni að menn hafa fært rök fyrir því að svo megi vera og það hefur komið fram einnig í þeim gögnum sem liggja fyrir frá hæstv. samgrh.

Í greinargerð tillögunnar var einnig lögð áhersla á tengingu við ferðaþjónustuna sem er einn mikilvægasti vaxtarbroddur í atvinnuuppbyggingu víða um landið. Síðan var einnig fjallað um umhverfishlið þessara mála og lögð áhersla á að með samræmdri samgönguáætlun mætti koma til móts við þau sjónarmið sem snúa að umhverfismálum, bæði með því að byggja upp þjóðhagslega hagkvæmar samgönguleiðir og einnig er varðar eldsneytissparnað og minni mengun.

Skemmst er frá því að segja að sú tillaga naut mjög mikillar samstöðu í Alþingi og var eins og fyrr segir samþykkt sem ályktun árið 1998.

Frv. sem hér liggur fyrir um samgönguáætlun felur í sér sömu markmið og komu fram í tillögunni. Það er vissulega fagnaðarefni að svo skuli vera og sýnir kannski framsýni þeirra sem fluttu tillöguna á sínum tíma.

Ég ætla ekki í sjálfu sér að fara mjög ofan í frv. Það hefur verið gert af hæstv. samgrh. og fleirum. Eitt atriði vil ég þó fá að nefna. Það er í 3. gr. þar sem fjallað er um samgönguráð. Ég tek undir það ákvæði frv. að setja upp samgönguráð til að fjalla um og vinna að áætlanagerð. En ég vil segja að ég mun taka þátt í umræðu um það í hv. samgn. þegar þar að kemur, hvort rétt er að tengja samgönguráðið meira við þingflokka og Alþingi þannig að stjórnmálamenn og stjórnmálaöflin komi formlega að slíkri vinnu fyrr en á síðustu stigum. Ég held að það sé mjög þess virði a.m.k. að samgn. taki það sérstaklega til umfjöllunar. Ég legg sem sagt til að það verði gert þegar þar að kemur. Ég ætla ekki sérstaklega að fjalla um það hér, en ég tel að hægt sé að færa rök fyrir því að æskilegt sé að samgönguráðið tengist Alþingi á einhvern hátt og legg ég áherslu á að samgn. taki það sérstaklega til umfjöllunar.

Að öðru leyti, herra forseti, ætla ég ekki að fjalla um frv. Ég ítreka að ég fagna því að það skuli komið fram og tel að hér sé um mikið framfaraspor að ræða og hagsmunamál þjóðarinnar til framtíðar.

Hæstv. ráðherra hefur skilað inn á borð þingmanna skýrslu sem stýrihópur vann um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003--2014. Ég vil reyndar taka fram að hæstv. samgrh. gerði samgn. grein fyrir þessu skjali ásamt stýrihópnum á formlegum fundi í gær. Ég vil nota tækifærið og þakka ráðherra fyrir það. Ég tel að þau vinnubrögð séu til fyrirmyndar og vil þakka fyrir það að svo hafi verið gert.

Í skýrslunni er fjallað mjög ítarlega um samgöngumál í heild sinni. Þetta er góð skýrsla sem ég hvet menn til að fara yfir. Hún er í senn fróðleg og upplýsandi og margt í henni sem væri út af fyrir sig ástæða til að ræða. En ég geri ráð fyrir að það verði gert síðar í tengslum við umfjöllun um sjálfa samgönguáætlun.

Ég vil þó nefna tvö atriði sem ég tel að sérstök ástæða sé til að leggja áherslu á í sambandi við þá skýrslu. Það er í fyrsta lagi áherslan sem er lögð á umhverfismálin. Ég tel mjög mikilvægt að taka sérstaka umfjöllun um umhverfismál í samhengi við samgöngumálin því eins og við vitum skipta samgöngur og umferð farartækja verulega miklu máli er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og ýmislegt annað er snertir umhverfismálin. Í skýrslunni er fjallað mjög mikið um það og koma þar fram mjög góðar upplýsingar.

Ég nefna eitt atriði í sambandi við umfjöllun um umhverfismálin og framtíðarorkugjafa fyrir samgöngutæki. Eins og við vitum hefur mjög mikið verið fjallað um og unnið í þróun á vetni og metangasi og öðru slíku til að knýja farartæki. Ég sakna þess að ekki skuli vera fjallað meira um það í skýrslunni því þar er um að ræða mjög mikið framtíðarhagsmunamál sem tengist okkur Íslendingum að verulegu leyti. Ísland hefur á vissan hátt tekið frumkvæðið t.d. er varðar þróun vetnis til að knýja farartæki. Stjórnvöld, ríkisstjórnin hefur lagt sérstaka áherslu á að móta stefnu um að vinna að því. Erlendir aðilar eins og bílaframleiðendur og fleiri, orkufyrirtæki, hafa komið að því starfi og telja þetta mjög athyglisvert og vilja gjarnan vinna með okkur Íslendingum að því að þróa slíka hluti. Stutt er í að um götur borgarinnar aki t.d. strætisvagnar sem verða knúnir vetni. Ég hefði því talið að um þessa hluti hefði mátt fjalla aðeins í skýrslunni. Út af fyrir sig ætla ég ekki að bera fram neina sérstaka gagnrýni. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt að menn hefðu vikið aðeins að því.

Í öðru lagi vil ég nefna tengingu við ferðaþjónustuna því ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur vaxið mjög mikið hjá okkur, sérstaklega út um landsbyggðina. Við vitum að miklir framtíðarmöguleikar felast í henni. Í þessari samantekt og umfjöllun stýrihóps hæstv. samgrh. er fjallað um ferðaþjónustuna í tengslum við heildstæða samgönguáætlun og ég tel að það sé mjög jákvætt og gott.

Ég ætla í sjálfu sér ekki á þessu stigi að fjalla meira um skýrsluna. Ég fagna því að hún er komin fram og fjallað er mjög ítarlega um samgöngumálin í heild sinni.

Ég legg einnig áherslu á að öll vinna við gerð samgönguáætlunar er eftir. Það á eftir að vinna drög að þeirri áætlun og Alþingi á eftir að taka mikla umfjöllun, þykist ég vita, um samræmda samgönguáætlun, væntanlega á næsta þingi, næsta haust. Spennandi tímar eru fram undan þegar menn fara að fjalla um þau mál því auðvitað eru samgöngur mikilvægar þjóðinni og kannski ein af grundvallarforsendum byggðar í landinu.

Síðan er hér annað frv., eins konar bandormur, sem tengist þessu frv. um samgönguáætlun. Þar er verið að fjalla um breytingar á skipan flugráðs, hlutverki flugráðs og hafnaráðs. Það er hlutir sem samgn. mun fjalla um.

Í flugráði er gert ráð fyrir fjölga fulltrúum úr fimm í sex og það er athyglisvert að þar er gert ráð fyrir að aftengja afskipti Alþingis af tilnefningu í flugráð. Ég legg til að samgn. fjalli sérstaklega um það atriði líka. Með því er verið að færa í hendur ráðherra alfarið að skipa í flugráð. Þar er um grundvallarbreytingu að ræða. Á sama hátt og er um að ræða tillögu um breytt hlutverk flugráðs og einnig hafnaráðs.

Herra forseti. Ég vildi nefna þetta og halda því til haga að þessi atriði verði sérstaklega tekin til umfjöllunar í hæstv. samgn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að sinni. Við munum fjalla um þessi mál síðar og aftur og aftur því samgöngumál eru málaflokkur sem sífellt er til umfjöllunar og skiptir okkur miklu máli. Við eigum eftir að fjalla um þessi frv. aftur í síðari umræðum á þessu vorþingi og í samgn.

Ég vil enda mál mitt á því að fagna því að þessi frv. liggi hér fyrir og ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir þá vinnu sem fram hefur farið í þessum efnum. Ég mun að sjálfsögðu taka þátt í umræðum um þessi mál í samgn. að lokinni umræðu.