Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 15:42:50 (3571)

2002-01-24 15:42:50# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður kom inn á það sem snýr að mengunarmálum, göngustígum, reiðhjólastígum, landflutningum og sjóflutningum.

Ef við tökum fyrst það sem snýr að sjóflutningi versus landflutningi er það svo að fólk segir í hinni dreifðu byggð: Ja, það eru tímar tvennir að geta hringt um eftirmiðdag og pantað vöru og hún er komin heim í hlað daginn eftir.

Þetta er málið í hnotskurn. Þetta er nútímakrafa Íslendingsins og við segjum öll hér: Við viljum halda hinni dreifðu byggð eins lengi og hægt er og leggja jafnvel allt í sölurnar til þess.

Nú erum við að tala um hvernig við getum snúið ofan af þessu og sagt: Ja, allur þungi flutningurinn skal af vegum og á sjó. En svo er einhver önnur vara sem á að vera á vegum á sama tíma og við þurfum auðvitað að leggja áherslu á að allir greiði hlutfallslega jafnt fyrir not veganna, hvort sem það eru þungir bílar eða léttir, og þá sé það í einhverri harmoníu við það sem gerist.

Það er svo líka með matvöruna að fólk vill ekki fá vöru merkta síðasta söludegi í búðinni. Það verður náttúrlega alltaf erfitt að þjóna báðum þessum sjónarmiðum.

Í sambandi við göngustígana vil ég benda á að í Breiðholti hefur tekist mjög vel til. Allar götur frá uppbyggingu þess hverfis 1965 hefur verið lagt mikið í að leggja göngustíga, og þar eru mjög skemmtilegar gönguleiðir alveg eins og þegar komið er niður í miðbæ. Þetta er náttúrlega meira á höndum sveitarfélaganna. Í skipulagningu sem þessari ætti að kveða á um hvernig sveitarfélög skuli fara með. Ég hef stundum haft orð á því varðandi hjólreiðastíga versus reiðstíga. Einum 40 millj. á ári er eytt til að leggja reiðstíga, og síðan er sagt: Ja, eiga bifreiðaskattgreiðendur að borga þetta? Þá segja menn: Ja, þetta er svo fjölskylduvænt að það er eðlilegt.

Alls staðar er svona tog og erfitt að gera svo öllum líki í þessu máli. En ég að tel að göngustígar séu eðlilega sveitarfélaganna.