Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 16:09:56 (3577)

2002-01-24 16:09:56# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fram kemur að tillögur til fjögurra ára áætlunar á hinum aðskiljanlegu sviðum samgöngumála skuli unnar í stofnun samgöngumála. Síðan tekur samgönguráð þessar tillögur til skoðunar og stefnumótunar og leggur endanlega tillögu fyrir hæstv. samgrh.

Hér er um mjög víðfeðma vinnu að ræða. Ég hefði talið, og það hefur komið fram í máli margra hv. þm. hér í dag, eðlilegt að sem flest sjónarmið og sem víðast að kæmu að þessari stefnumótunarvinnu. En þetta er að sjálfsögðu nokkuð sem hv. samgn. þarf að skoða.

Varðandi samræmi í skattlagningu er það staðreynd að skipafélögin, Samskip t.d., hafa sagt að þau séu að færa flutninga sem að mörgu leyti sé heppilegra að hafa á sjó, upp á land vegna þess að það sé ódýrara, hitt sé dýrara. Þess vegna staldra ég við þegar hæstv. samgrh. segir að nú þurfi að skattleggja sjóflutningunum í hag. Ég velti því upp hvaða afleiðingar þetta komi til með að hafa fyrir dreifðar byggðir landsins vegna þess að að sjálfsögðu mun þetta endanlega leggjast á þá sem njóta þessara flutninga.

Ég er ekki með þessu að leggja neinn endanlegan dóm á hvernig eigi að haga skattlagningu og vil einmitt huga að því hvernig við gerum það, notum skattlagningu í þágu umhverfisverndar, svo dæmi sé tekið. En ég staldraði við af þessum sökum.