Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 16:12:12 (3578)

2002-01-24 16:12:12# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. að ég hafi sagt að skattleggja eigi sjóflutningum í hag. Ég var að leggja áherslu að þarna yrði sanngirni í gangi þannig að ekki væri verið að mismuna atvinnugreinum og þess vegna setti ég þessa vinnu af stað til þess að skoða hvað sé þjóðhagslega skynsamlegast fyrir okkur að gera varðandi skattlagningu þessara flutningaleiða, annars vegar sjóflutninga og hins vegar flutninga á landi.

Það er alveg ljóst, við sjáum það bara á þróuninni, að þegar skipafélög eru farin að nota bíla til flutninga um landið þá bendir allt til þess að þau telji það vera hagkvæmast. Þau munu væntanlega velja þá leið sem er hagkvæmust fyrir fyrirtækin.

Ég tel hins vegar að núna í tengslum við þessa samræmdu samgönguáætlun þurfi einmitt að skoða þessa hluti og þess vegna er vinna í gangi í ráðuneytunum sem liður í því og kemur það kannski inn á það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir undirstrikaði svo skýrt, að auðvitað þurfum við að huga að umhverfismálunum. Í skýrslu stýrihópsins er fjallað mjög vandlega um umhverfisþættina og það vil ég svo sannarlega gera þó að ég vilji nú ekki lofa því að þingmenn Vinstri grænna fái græna skýrslu eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi. En ég legg áherslu á að þjóðhagsleg gildi verði í heiðri höfð. Ég mun einnig leggja áherslu á að við sýnum og sönnum í framkvæmd að við leggjum áherslu á umhverfismálin þegar við horfum til framtíðar í samgöngumálum.