Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 16:37:10 (3581)

2002-01-24 16:37:10# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[16:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið fróðleg umræða og þó segja megi að hún sé nokkuð á enda runnin langar mig að nálgast hana frá öðru sjónarhorni en flestir sem hafa talað hér í dag. Það sem hefur gert hana fróðlega er að menn hafa verið að líta á samgöngumálin frá mismunandi sjónarhóli og það er gott. Það er ekki oft sem við í þessum sal tökum opna umræðu um þessi mál og reynum að átta okkur á hvað framtíðin beri í skauti sér og hvaða markmið við verðum setja okkur. Það er ljóst að með þessu þingmáli sem við ræðum í dag erum við að setja markmið og mér finnst það gott. Mér finnst gott að það eigi að vinna samgönguáætlun, líka að Alþingi fái árlega skýrslu um framvindu áætlunarinnar, eina skýrslu í stað framkvæmdaskýrslna stofnana. Það ætti að auðvelda okkur yfirsýn og jafnframt leiða í ljós nýjar þarfir, t.d. vegna þróunar skipulags, og þess vegna er ekki skrýtið að menn hafi væntingar um að þetta mál geti orðið til bóta. Þingmálið sem slíkt, eins og hér hefur komið fram, er ekki mikið að vöxtum en auðvitað felast í því afar margir þættir sem opna möguleikana á umræðu.

Mér finnst umræðan að mestu leyti hafa snúist um vegamál og það er ekkert skrýtið. Þau eru mjög mikilvæg og víða þarf að taka til hendinni. Það þekkja allir sem hafa ferðast mikið um landið og það þekkja þeir auðvitað best sem eru mikið á ferðinni. Þó að við höfum gert afskaplega mikið er alveg ljóst að enn er langt í land til að vegamál megi teljast viðunandi.

Af því að ég er að tala næst á eftir Guðjóni A. Kristjánssyni verð ég að nefna að mér hefur fundist alveg skelfilegt að ferðast um Vestfirði og að við skulum ekki vera komin lengra með úrbætur þar en raun ber vitni. Þá er ég auðvitað að tala um vegi fyrir utan þá miklu samgöngubót sem jarðgöngin urðu fyrir Ísafjörð og svæðið um kring.

Það sem mig langar til að gera í stuttri ræðu minni í dag undir lok umræðunnar er að draga athyglina að þessu svæði, því svæði sem við erum stödd á í dag, höfuðborginni og höfuðborgarsvæðinu, þessari afgangsstærð sem svo oft vill verða í þessum málaflokki af því að þörfin er svo mikil annars staðar og þéttbýlið og staðurinn þar sem næstum allt fólkið er er svo oft feimnismál í umræðunni. Umræðan snýst þess vegna eiginlega um allt sem er að gerast fyrir utan höfuðborg og höfuðborgarsvæðið.

Ég þekki nokkuð vel til hvernig haldið er á málum varðandi umferðina út úr höfuðborginni vegna þess að við Reykjanesþingmenn sem fáum inn á borð til okkar öll mál sem varða samgöngubætur og úrlausnir út frá höfuðborginni. Það er eiginlega alveg sama í hvaða átt er farið, alltaf er farið í gegnum Reykjaneskjördæmið. Meira að segja þegar jarðgöngin komu undir Hvalfjörð þá kom það á borð Reykjanesþingmanna að meta og kosta vegabæturnar hérna megin fjarðar af því að það var í Reykjaneskjördæmi. Það kemst því enginn út úr Reykjavík nema að fara í gegnum Reykjaneskjördæmi og við þekkjum hve mikið hefur þurft að taka til hendinni og hve sárt hefur oft og tíðum verið að hafa ekki meira fjármagn og geta ekki gert betur vegna þess að umferðin er svo þung, bílarnir eru svo margir og svo margt fólk er að ferðast á fáum vegum en nauðsynlegum.

Hér hefur það verið nefnt oftar en einu sinni í dag að það sé markmið í áætluninni að ekki eigi að taka nema þrjár og hálfa klukkustund víðast hvar af landinu að komast til Reykjavíkur. Þá er verið að tala um allar leiðir, sem sagt flugið þar með. Ég ætla eingöngu að tala um vegamálin. Þá vaknar auðvitað spurning um hvaða áhersla verði lögð á að íbúar höfuðborgarsvæðisins komist um svæðið sem þeir búa á á viðunandi tíma. Hvernig ætlum við að halda á þeim málum? Það er svo sjaldan talað um það.

Þess vegna er mjög gott að fá t.d. þessa tillögu stýrihóps. En ég á ekki sæti í samgn. og ég hef verið önnum kafin við ýmis verkefni. Það er svo stutt síðan þessi gögn komu fram að það er næstum því ósæmilegt að taka mál á dagskrá eins og þessa samgönguáætlun, sem dreift var í hólfin að ég held í gær, vegna þess að svo mikið er undir hjá þingmönnunum. Gögnin eru svo mikil að vöxtum sem þarf að skoða til að geta tekið faglega umræðu um það mál sem hér er á dagskrá. Og það er mjög mikilvægt að við tökum breiða umræðu þrátt fyrir að þingmálið sjálft sé frekar afmarkað.

Í þessari skýrslu stýrihóps sem ég hef gripið ofan í segir um höfuðborgarsvæðið að það sé meginmiðstöð samgangna á Íslandi, 70% innflutnings og 40% útflutnings fari um hafnirnar. Og þegar rætt er um þjóðvegakerfið er sagt að við gerð aðalskipulags sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi þjóðvegakerfinu oftast verið ætlað nægt rými fyrir vegina sjálfa og mislæg gatnamót sem þurfa mikið pláss. Þegar komi að því að framfylgja skipulaginu reynist sveitarfélögunum oft mjög erfitt að standa gegn þrýstingi hagsmunaaðila og verði niðurstaðan stundum sú að þrengt er að vegum og gatnamótum og tengingum fjölgað á stórar umferðaræðar.

Einnig segir að í vinnu við svæðaskipulagið sem fór fram á síðasta ári komi þetta fram í því að óhjákvæmilegt sé talið að gera jarðgöng á nokkrum stöðum í framtíðinni á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar einmitt að draga skýrslu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins inn í þessa umræðu þó ég ætli líka að leyfa mér að stikla örstutt á þessum málum, enda gefur ræðutími ekki tilefni til annars.

Út frá umferðarspá í skýrslu stýrihóps segir að áætla megi umferðaraukningu til ársins 2014 og að gert sé ráð fyrir að umferð aukist um 23% frá 1998. Fram kemur að flutningsgeta verði nægileg í kringum borgina með fáum undantekningum. Þó er bent á að breikka verði Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar og breikka veginn milli Selfoss og Reykjavíkur og á Kjalarnesi. Þetta eru vegirnir þegar við komum lengra út frá borginni enda hefur verið haldið vel á málum og reynt að vera með góðar úrbætur að undanförnu.

[16:45]

Svo komum við að vegunum á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. Kostnaðurinn við þær framkvæmdir hefur verið metinn og heildarkostnaður við gerð þeirra er áætlaður 30 milljarðar kr. Í tengslum við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hefur fjárþörfin til 2024 verið metin. Niðurstaða þess mats er að fram til 2024 verði kostnaðurinn um 62 milljarðar, þ.e. nauðsynlegar framkvæmdir til að uppfylla framkvæmdamarkmið kosta 30 milljarða en u.þ.b. tvisvar sinnum hærri upphæð á tvöfalt lengri tíma en samgöngu\-áætlunin nær yfir, um 62 milljarðar kr.

Þar er þó gert ráð fyrir að meiri hluti upphæðarinnar --- og ég bið þingmenn að taka eftir því --- falli til á fyrri hluta tímabilsins, þ.e. fyrir 2014. Nú er árið 2002. Í skýrslu stýrihópsins er gefið til kynna að meiri hluti fjárhæðarinnar, þessara 62 milljarða kr., muni falla til á næstu tólf árum. Þetta finnst mér afskaplega þýðingarmikið og einnig að í skýrslu stýrihópsins er bent á að gera verði jarðgöng hér, m.a. jarðgöng undir Kópavogsháls.

Margir þeirra sem skoða þessi mál í dag eru þeirrar skoðunar að það verði miklu fyrr en síðar að gera verði slík jarðgöng. Bara við þá breytingu sem varð í haust, með opnun hins risastóra verslunarhúsnæðis í Smáralindinni, hefur umferðin á svæðinu sunnan til í Kópavogi breyst gífurlega. Þrátt fyrir þær góðu úrbætur sem planfrí gatnamót á milli Breiðholts og Nýbýlavegar eru er alveg ljóst að það verður að líta á þetta svæði fyrr en seinna. Þess vegna er nauðsynlegt að við umræðu eins og þessa sé bent á það.

Ég hef verið að glugga í þessa skýrslu, sem auðvitað hefur verið mjög takmarkað og einnig skoðað svolítið að undanförnu skipulagið til 2024 sem sveitarfélögin á svæðinu komu sér saman um á sl. ári. Kosin var framkvæmdanefnd um svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu og það var stórmál að öll sveitarfélögin frá Hafnarfirði og upp í Kjós skyldu koma sér saman um það að reyna að vinna svæðisskipulag þannig að ekki væri hver höndin upp á móti annarri. Reynt var að skoða hvernig þróun byggðar skyldi verða í hverju sveitarfélagi fyrir sig og þar með hvaða umferðarmannvirki þróun byggðar kallar á.

Það sem er athyglisvert við svæðisskipulagið og mér finnst mikilvægt að nefna við hæstv. samgrh. er að í nefndinni, sérstaklega á síðustu fundum hennar í haust, var kallað eftir því að samstaða næðist um bindandi ákvarðanir svæðisskipulagsins. Um það náðist ekki samkomulag. Sveitarfélögin vilja ekki vera með bindandi svæðisskipulag. Þau vilja ekki að framkvæmdanefndin taki um það ákvörðun fyrir allt svæðið að byggðin eigi að þróast í norður, upp á Geldinganes og Kjalarnes, eða að hún eigi að þróast í suður.

Garðabær á mikið land, sömuleiðis Hafnarfjörður, fyrir sunnan Hafnarfjörð. Margir telja það miklu vænlegri kost út af landrými, landlegu, veðurfari og öðru, að byggðin þróist í suður. Um þetta er ágreiningur. Þetta er opið mál. En það er alveg ljóst að það ræður nokkru um markmiðin sem menn setja sér með umferðarmannvirkin á höfuðborgarsvæðinu hvert byggðin þróast, það er alveg ljóst.

Ég get ekki annað, virðulegi forseti, en gripið aðeins niður í þessa góðu skýrslu um svæðisskipulagið. En fyrst vil ég geta þess að á fundum okkar þingmannanna í Reykjaneskjördæmi í haust, þegar við fórum í hefðbundna yfirferð og hittum sveitarstjórnir, var á hverjum einasta stað talað um svæðisskipulagið, þ.e. að það yrði ekki bindandi, að þróunin hér á höfuðborgarsvæðinu mundi kalla á umtalsverðar úrbætur í vegamálum, umtalsverð vegamannvirki og í miklu ríkari mæli og miklu kostnaðarsamari en hafa dugað áður og að það verði að standa vörð um þetta og gæta þess að þessi mál verði tekin föstum tökum.

Af því að ég ætla að vísa í svæðisskipulagið vil ég strax bera fram spurningu mína til ráðherra: Með hvaða hætti á að tengja framvindu svæðisskipulagsins, markmiða sem þar eru sett og markmið í vegamálunum? Á vegum svæðisskipulagsins á að stofna svæðisráð. Það er pólitískt ráð. Mér sýnist að það nægi ekki að vegamálastjóri, sem er embættismaður, eigi sæti í því ráði, samgönguráði, sem á að skipa samkvæmt þeirri tillögu sem við erum að ræða hér. Þar sæti embættismaður og reyndi að miðla þekkingunni frá pólitíska apparatinu sem svæðiðsráðið er til samgönguráðsins sem hæstv. samgrh. ætlar að setja á laggirnar og reyndi að túlka hvaða markmið þarf að setja miðað við hvert byggðin þróast.

Þetta er stórmál. Þetta er stórmál vegna þess að við erum að tala um svo mikið umfang. Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi íbúða muni aukast úr tæpum 63 þús. íbúða árið 1998 í nærri 95 þús. íbúða árið 2024. Þetta er alveg gífurleg fjölgun, yfir 50% fjölgun á þessum tíma. Eins og sagt var hér áðan er gert ráð fyrir að vegamálin, eða krafa um stórar úrbætur í vegamálum, muni koma til á fyrri hluta tímabilsins, e.t.v. næstu tólf árum.

Það kemur fram í skýrslu skipulagsráðsins eða svæðisnefndarinnar að það verði þörf á mjög miklum úrbótum fram til ársins 2024 sem verði mjög kostnaðarsamar. Búist er við að aðgengi bíla að miðsvæðum, t.d. í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar, muni versna. Auðvitað vona menn að hægt verði að koma eitthvað til móts við það með fjölgun farþega í almenningsvögnum en við vitum hvernig þetta hefur verið. Við vitum að það hefur verið erfitt að fá fólk til að nota almenningsvagnana og nýta sér þau samgönguúrræði sem fyrir eru.

Það er líka sagt að til að viðhalda núverandi þjónustustigi bílaumferðar á stofnbrautum og svæðisbundnum tengibrautum þurfi að byggja eftirtalin umferðarmannvirki: Fyrsta áfanga Sundabrautar milli Sæbrautar og Geldinganess, Hlíðarfót milli Hringbrautar og Kringlumýrarbrautar, og Kópavogsgöng milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar.

Lái mér hver sem vill þó að ég freistist til að spyrja samgrh. hvort hann hafi reynt að leggja mat á hvenær nauðsynlegt verði að göng undir Kópavogsháls verði komin í gagnið. Þetta er þvílíkt stórmál hvernig við höldum á málum hér á svæðinu, ég tala nú ekki um ef farið verður í miklar byggingar hér í Kvosinni og svæðin þéttast jafnmikið og gefið er til kynna í skýrslu svæðisskipulagsins.

Eins og ég sagði áðan er lagt til að sveitarfélögin beiti sér fyrir stofnun samstarfsráðs fyrir höfuðborgarsvæðið til að skapa vettvang fyrir umræður og stefnumótun um málefni höfuðborgarsvæðisins. Þar kemur jafnframt til með að vera vettvangur skoðanaskipta milli sveitarstjórnarmanna annars vegar og fulltrúa atvinnulífs, ríkisvalds og félagasamtaka um málefni sem snerta höfuðborgarsvæðið sem heild.

Þegar maður hefur rætt þessi mál við sveitarstjórnarmenn, þ.e. vegamálin t.d. og þörfina fyrir stóru úrbæturnar í vegamálum, hefur mönnum því miður þótt skorta á að nægilegt samráð væri á milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisvaldsins. En nú er þannig haldið á málum af hálfu sveitarfélaganna að í stað þess að þau þrýsti hvert um sig á um úrbætur, í stað þess að það sé verið að þrýsta á aðgerðir heima í hverju sveitarfélagi, er tekið á þessu máli heildstætt. Það hlýtur að vera hægt að flétta vinnuna við svæðisskipulagið inn í samgönguáætlunina með einhverjum þeim hætti að pólitísk stefnumörkun komi fram á báðum stöðum og tengist. Frá mínum bæjardyrum séð er það óhjákvæmilegt, herra forseti.

Ég hef í stórum dráttum komið þeim ábendingum til skila sem mér lágu á hjarta. Ég vil undirstrika hversu gífurlega mikilvægt er að láta þetta tvennt haldast í hendur. Ég minni á hve mikilvægt er að skoða hvaða göng þarf að gera þannig að menn lendi ekki í vandræðum af því að ekki hafi verið fyrir því hugsað. Dýr vegamannvirki eru of viðamikið verkefni fyrir sveitarfélögin. Þess vegna eru þau hjá ríkinu. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr verður áhersla að koma á höfuðborgarsvæðið í allra nánustu framtíð, a.m.k. til jafns við aðra staði. Það verður að skoða jarðgöng hér á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. til jafns við það sem gera á úti á landi.