Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 17:08:28 (3584)

2002-01-24 17:08:28# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[17:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi tengingu milli þeirra sem vinna að undirbúningi annars vegar svæðisskipulags og hins vegar samgönguáætlunar. Þetta eru náttúrlega gjörólík viðfangsefni, annars vegar er verið að vinna að heildarskipulagi borgar og byggðar hér á höfuðborgarsvæðinu og svo hins vegar að leggja á ráðin um framkvæmdir í samgöngumálum fyrir allt landið. Ég held að það sé ekki alveg hægt að setja upp sama módel fyrir þessa tvo hópa.

Frv., eins og ég legg það fyrir, gerir ráð fyrir samgönguráði þar sem embættismenn og forsvarsmenn þessara stofnana, samgöngustofnana, ásamt fulltrúa ráðherra eiga að undirbúa þær tillögur sem ráðherra leggur síðan fram og ber ábyrgð á. Áður en slíkar tillögur verða til gerum við auðvitað ráð fyrir margþættu samráði og m.a. að efna til sérstaks samgönguþings eða umræðu með svipuðum hætti og við gerðum á síðasta ári á vegum stýrihópsins. Ég óttast þannig ekki skort á samráði við þennan undirbúning.

Aðeins varðandi þetta eilífðartal Samfylkingarinnar þar sem reynt er að gera samgönguráðherra allra tíma sem starfa á vettvangi Sjálfstfl. tortryggilega gagnvart borginni --- ég vísa því bara algerlega til föðurhúsanna. Þetta er pólitísk tilraun til þess að etja saman stjórnmálamönnum og það er bara eins og það er, og er vandamál þeirra sem sjá þetta í því ljósi.