Svör um sölu ríkisjarða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:16:18 (3603)

2002-01-28 15:16:18# 127. lþ. 61.92 fundur 277#B svör um sölu ríkisjarða# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þessa umræðu. Nú er það ljóst sem kom fram í áliti ríkisendurskoðanda og þingmenn hafa nú í höndum sínum að í fyrsta sinn þá eru jarðasölumál upplýst og í öruggum hlutlausum farvegi þannig að hann hefur farið yfir mín störf og í rauninni sagt að hann sé sáttur við þau vinnubrögð. Ríkisendurskoðandi er armleggur Alþingis og rannsakar mál, eins og ég hef getið fyrr, þannig að ég er þakklátur fyrir að hann telur að það samkomulag sem gert var við hann 1999 hafi staðið. Jarðasölumálin eru því í góðum farvegi eins og þau eru í dag og fyrir það er ég þakklátur.

Ég get tekið undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að mannanöfn eiga auðvitað ekki að vera leyndarmál. Það forvitnilegasta við jarðasölur er oft hver keypti jörðina í næsta nágrenni. Ég lít því svo á að það eigi líka að vera upplýst. Það er áhugamál hvers manns að vita hver kemur og ætlar að búa í nágrenni við hann eða eignast jörðina.

Blaðamannafundir eru auðvitað ekki þingstörf en þó er alveg ljóst að Vintri grænir kjafta mann ekki þar í kaf. Ég álít samt sem áður mjög mikilvægt að halda blaðamannafundi því að blaðamenn þjóna þeirri upplýsingaskyldu við samfélagið að koma upplýsingum á framfæri þannig að það er mjög mikilvægt samstarf.

Ég hef ekkert hafnað því að svara fyrirspurninni aftur. Hv. þm. vill fá svar á ný. Samkvæmt þeim reglum sem nú gilda er það sjálfsagður hlutur og verður gert strax á morgun.