Skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um tekjuskiptingu á Íslandi

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:25:01 (3608)

2002-01-28 15:25:01# 127. lþ. 61.1 fundur 271#B skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um tekjuskiptingu á Íslandi# (óundirbúin fsp.), KHG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Á vegum Byggðastofnunar komu út tvær skýrslur á síðasta ári sem fjölluðu um samband íbúaþróunar og kvótatilflutnings. Í fyrri skýrslunni sem heitir Sjávarútvegur og byggðaþróun, var niðurstaðan að ljóst væri að tilflutningur aflaheimilda milli landshluta og byggðarlaga hefði víðtækar afleiðingar fyrir þróun byggðar í landinu, þar með talið fyrir fólksflutninga, en áréttað var að fleira hefði áhrif.

Síðari skýrslan var um áhrif kvótasetningar aukategunda krókabáta og niðurstaðan varð svipuð, kvótasetningin mundi draga úr veiði og þar með yrði verulegur samdráttur í aflaverðmæti og störfum mundi fækka í kjölfarið.

Báðar skýrslurnar voru ræddar á opinberum vettvangi og urðu ýmsir til að daga í efa niðurstöðurnar á þann hátt að tilflutningur kvóta hefði ekki þau áhrif sem lýst var.

Nú hefur komið út skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um tekjuskiptingu á Íslandi. Meðal þess sem lesa má í niðurstöðum á bls. 132 er að aukinn jöfnuður í tekjum í sumum sjávarbyggðum er talinn stafa af því að hálaunastörf tengd sjómennsku hurfu úr byggðarlaginu með kvótanum, jöfnuður hafi aukist á þeim svæðum þar sem kvótaeign minnkaði en aukning kvóta leiddi af sér aukinn ójöfnuð í tekjum í því byggðarlagi sem kvótinn jókst. Nánar er sambandið skýrt á bls. 111 í skýrslunni þar sem athugað er hvort kvótatilflutningur sé til þess fallinn að breyta svokölluðum Gini-stuðli í sjávarbyggðum þannig að um leið og fiskiskip og sjómannsstörf fara burt muni jöfnuður aukast. Er þessi niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands mjög í samræmi við skýrslu Byggðastofnunar.

Af þessu tilefni er spurt hvort ráðherra sé sammála þessari niðurstöðu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og hvort hún muni hafa áhrif á væntanlega endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.