Olíuleit við Ísland

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:36:32 (3616)

2002-01-28 15:36:32# 127. lþ. 61.1 fundur 273#B olíuleit við Ísland# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Já, rannsóknir hafa farið fram í norðausturhluta efnahagslögsögu Íslands af hálfu fyrirtækis sem heitir InSeis og er norskt. Fékk það leyfi til þriggja ára til þess að vinna að rannsóknum á þessu svæði samkvæmt lögum sem sett voru í mars sl. um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

Þetta fyrirtæki hefur ekki rétt til borana eða vinnslu á olíu heldur einungis til rannsókna. Út úr þessum rannsóknum hefur komið að ekki er a.m.k. útilokað að þarna gætu fundist verðmæti en fyrsti áfangi fór fram í sumar og leyfið er til þriggja ára. Fyrirtækið kynnti í haust niðurstöður sínar, bráðabirgðaniðurstöður. Þarna er að finna þykk setlög. Framhaldið ræðst að verulegu leyti af því hvaða áhuga olíufyrirtæki kunna að hafa á þeim gögnum sem nú liggja fyrir og fyrirtækið er tilbúið til þess að selja.

Fyrirtækið hefur ákveðnar skyldur. Það hefur þær skyldur t.d. að skila formlega til Orkustofnunar fyrir 1. apríl niðurstöðum sínum og um þetta mál er ekki mikið meira að segja á þessu stigi. Góðu fréttirnar eru þær að ekki er útilokað að þarna finnist verðmæti en hins vegar er óvissan mikil um það hvort þeim fyrirtækjum sem þarna kynnu að hafa áhuga á vinnslu þykja niðurstöður InSeis nógu álitlegar til þess að vilja kaupa þær með það í huga að halda áfram.