Olíuleit við Ísland

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:38:48 (3617)

2002-01-28 15:38:48# 127. lþ. 61.1 fundur 273#B olíuleit við Ísland# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svarið en vildi um leið beina þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnrh. hvort fleiri aðilar hafi leitað upplýsinga varðandi frekari olíuleit.

Hins vegar er mjög athyglisvert að lesa viðtal við Steinar Þór Guðlaugsson, jarðeðlisfræðing frá Orkustofnun, sem segir að rannsóknir Norðmanna staðfesti að mjög þykk setlög séu á olíuleitarsvæðinu og þau séu á þeim aldri að þau séu vel líkleg til þess að hafa getað myndað olíu og geymt hana.

Hann segir líka aðspurður að hafsvæði við Ísland þar sem olíu gæti verið að finna séu tiltölulega fá. Svæði undan Norðurlandi sem er í ákveðinni grunnkönnun sem stjórnvöld hafa fjármagnað, þ.e. svæðið frá Húsavík yfir í Eyjafjarðarál, og þá hafi menn rennt auga til svæðisins vestur af Vestfjörðum. Þetta er mjög athyglisvert og vissulega þess eðlis að gaumgæfilega sé fylgst með framvindu þessa máls.