Fjarskiptasamband í Vestfjarðagöngunum

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:40:51 (3619)

2002-01-28 15:40:51# 127. lþ. 61.1 fundur 274#B fjarskiptasamband í Vestfjarðagöngunum# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í Ríkisútvarpinu í morgun í þættinum Hér og nú var fjallað um öryggisbúnað og fjarskiptasamband í Vestfjarðagöngunum þar sem kom fram m.a. að neyðarsímar í göngunum virka eins og sveitasímarnir í gamla daga, þ.e. að merkin dofna eftir því sem fleiri taka upp tólin en annað fjarskiptakerfi er ekki þar í göngunum. Þess vegna er ekki hægt að halda fjarskiptasambandi við björgunaraðila eða slökkvibíla í göngunum ef um slys er að ræða. Vafalaust er hliðstætt með Ólafsfjarðargöngin.

Herra forseti. Ég leyfi mér því að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. samgrh. hvort af hans hálfu sé fyrirhugað að gera endurbætur þarna á og koma á nægilega öruggu fjarskiptasambandi í göngunum þannig að hægt sé að halda uppi eins miklu öryggi og kostur er ef slys ber að höndum því að það er mjög brýnt að öryggi sé tryggt við slíkar aðstæður.