Virðisaukaskattur

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:09:06 (3632)

2002-01-28 16:09:06# 127. lþ. 61.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Eins og kemur fram í greinargerð með frv. er hér verið að leggja til nokkrar aðskildar breytingar á lögunum sem þó verða engar taldar meiri háttar að efni til. Að mestu leyti er hér um að ræða minni háttar breytingar sem varða framkvæmdaatriði laganna og byggja að hluta á ábendingum frá embætti ríkisskattstjóra og tollstjórans í Reykjavík, auk atriða úr skýrslu nefndar um framkvæmd virðisaukaskatts sem út kom fyrir tæpum tveimur árum.

Nánar tiltekið er um eftirfarandi fimm breytingar að ræða:

Í fyrsta lagi er lagt til að viðauki við lögin samanstandi af lista yfir tollskrárnúmer þeirra vara til manneldis sem bera 14% virðisaukaskatt í stað 24,5% eins og núgildandi viðauki kveður á um. Kallar sú breyting á breytingu á orðalagi 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna. Sú nálgun að telja upp í viðauka þær vörur til manneldis sem bera 14% virðisaukaskatt er til einföldunar og er í betra samræmi við uppbyggingu laganna, auk þess sem hún auðveldar vinnu við breytingar sem leiða af breytingum á tollskrá.

Í öðru lagi er lagt til að breyting verði gerð á 35. gr. laganna þess efnis að beina skuli skýrslum um þjónustukaup frá útlöndum til skattstjóra en ekki tollyfirvalda. Þar sem skattyfirvöld eru í betri eftirlitsaðstöðu hvað þetta varðar en tollyfirvöld er lagt til að skattyfirvöldin annist framkvæmdina varðandi þessar skýrslur.

Í þriðja lagi er lagt til að afgreiðslutími beiðna um endurgreiðslur virðisaukaskatts sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess verði styttur og aðgengi að þessum endurgreiðslum þar með bætt. Lagt er til að beiðnir af umræddum toga verði teknar til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar jafnóðum og þær berast og að til endurgreiðslu komi strax eftir að skattstjóri hefur tekið afstöðu til framkominnar beiðni. Tillaga þessi byggir á skýrslu nefndar um framkvæmd virðisaukaskatts frá mars árið 2000. Í umræddri skýrslu er einnig lagt til að afnumið verði ákvæði um verðtryggingu endurgreiðslu þessara, sem og vegna nýbygginga, og kveður frv. jafnframt á um það atriði.

Í fjórða lagi er um að ræða lagfæringar til samræmis við breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 104/2000, um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur. Breytingarnar miðuðu að því að niðurfelling ýmissa gjalda sem lögð eru á vörur við innflutning þeirra til landsins eða framleiðslu þeirra hér á landi verði lögákveðin í stað þess að handhöfum framkvæmdarvalds verði framseld heimild til að ákveða hvort til lækkunar eða niðurfellingar skuli koma. Breytingar í þessa átt, sem voru gerðar með lögum nr. 104/2000, náðu hins vegar aðeins til innflutnings. Af þeim sökum var eftirgjöf gjalda ekki fullkomlega sambærileg og verið hafði skv. 7. gr. fjárlaga, lið 1.1, þar sem sú heimild var ekki bundin við innflutning. Með frumvarpi þessu er eftirgjöf gjalda gerð sambærileg því sem áður var í 7. gr. fjárlaga, lið 1.1, eins og að var stefnt við gerð laga nr. 104/2000.

Í fimmta lagi, herra forseti, er lagt til að réttur aðila til sérstakra endurgreiðslna samkvæmt lögunum verði bundinn við sex ár, þ.e. einungis verði hægt að fá endurgreiðslu sex ár aftur í tímann. Með sérstökum endurgreiðslum er samkvæmt núgildandi lögum átt við endurgreiðslur samkvæmt XIII. kafla laganna og ákvæði til bráðabirgða. Í lögunum hefur til þessa ekki verið að finna neina slíka reglu og verður að telja slíkan rétt til endurgreiðslu, án tímatakmarkana, í andstöðu við almenn tómlætissjónarmið.

Rökin fyrir því að miða réttinn til endurgreiðslu við sex ára tímamark eru í fyrsta lagi þau að jafnræði ríkir þá á milli þeirra sem sækja um endurgreiðslu og hinna sem fá eða óska eftir leiðréttingu skv. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lokamálsgrein 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í öðru lagi er sex ára fresturinn í samræmi við rétt skattyfirvalda til endurupptöku á skattskilum skattaðila honum í óhag, sbr. 5. mgr. 26. gr. laganna og 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981. Í sumum tilvikum er rétturinn til endurgreiðslu í beinum tengslum við almenn virðisaukaskattsskil aðila. Ef um er að ræða tímabil sem er eldra en sex ára samkvæmt skilgreiningu 5. mgr. 26. gr. laganna er skattyfirvöldum óheimilt að hreyfa við skattskilum skattaðila ef það er honum í óhag en hugsanlega geta þau ekki hindrað að hann geti fengið endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna sama tímabils. Þannig kynni skattaðili að öðlast rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem hann hefur sjálfur ekki staðið skil á í ríkissjóð af eigin þjónustu. Verður að telja slíkt óeðlilegt. Í þriðja lagi miðast sex ára reglan við þær reglur sem gilda um geymslu bókhalds en skv. 2. mgr. 17. gr. laganna ber skattaðila að geyma bókhald sitt í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Verður það að teljast ein af grundvallarforsendum á afgreiðslu endurgreiðslubeiðni að skattyfirvöld geti skoðað bókhaldsgögn endurgreiðslubeiðanda og þeirra er hann átti viðskiptin við.

Ég hef nú í stuttu máli, herra forseti, gert grein fyrir efnisatriðum þessa litla frv. og ég legg til að því verði að umræðunni lokinni vísað til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr.