Bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:16:33 (3634)

2002-01-28 16:16:33# 127. lþ. 61.11 fundur 347. mál: #A bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frv. þetta er 347. mál þingsins á þskj. 468.

Með frv. þessu er lagt til að félögum sem kveðið er á um í 1. mgr. 1. gr. laganna um ársreikninga, sem eru einkum félög með takmarkaðri ábyrgð eigenda og uppfylla tiltekin skilyrði um vægi viðkomandi gjaldmiðils í starfsemi sinni, verði heimilað að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli.

Á síðustu árum hafa tekið gildi ný lög um bókhald og ársreikninga í ýmsum nálægum löndum, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, þar sem veittar hafa verið heimildir til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum þó svo misjafnlega langt hafi verið gengið í þeim efnum í einstökum löndum.

Í ljósi vaxandi alþjóðavæðingar hafa þær raddir orðið æ háværari hér á landi sem óskað hafa eftir því að fá að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli, enda íslensk fyrirtæki í sívaxandi samkeppni á alþjóðamarkaði.

Því varð úr að haustið 2000 skipaði ég nefnd til að endurskoða lög um ársreikninga og lög um bókhald, auk þess að kanna möguleika á því að heimila færslu bókhalds og samningu ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Efni þessa frv. byggir í megindráttum á tillögum nefndarinnar.

Helstu rökin fyrir því að veita félögum þessa heimild eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi verður fjárhagslegur samanburður við erlenda samkeppnisaðila auðveldari.

Í öðru lagi má gera ráð fyrir að sveiflur í afkomu félaga vegna gengisbreytinga verða minni.

Í þriðja lagi mun aðgengi erlendra fjárfesta og lánastofnana að viðurkenndum upplýsingum batna til muna.

Í fjórða lagi verður auðveldara fyrir erlendar fyrirtækjasamstæður að stofna og reka dótturfélög á Íslandi.

Í fimmta lagi verður auðveldara fyrir íslensk móðurfélög að stofna og reka dótturfélög erlendis.

Við undirbúning þessa frumvarps var tekið til sérstakrar skoðunar hvort heimila ætti félögum, sem fengið hafa heimild til færslu bókhalds og samningu ársreikninga í erlendum gjaldmiðli, skattskil í þeim gjaldmiðli. Við könnun hjá hinum Norðurlöndunum kom í ljós að ekkert þeirra hefur heimilað skattskil í erlendum gjaldmiðli.

Þá kom og í ljós við nánari athugun að verulegur munur getur orðið á tekjuskattsstofni eftir því hvort hann byggist á reikningsskilum sem gerð eru í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðli. Gengisbreytingar erlendra gjaldmiðla gagnvart krónunni valda því að ýmsar fjárhæðir í rekstrarreikningi geta orðið allt aðrar í skattframtali sem byggt er á bókhaldi og reikningsskilum í erlendum gjaldmiðli en ef það væri í íslenskum krónum. Skattstofnar verða mismunandi, hvort heldur um er að ræða stofna til tekjuskatts, eignarskatts, virðisaukaskatts, tryggingagjalds eða annarra gjalda.

Af ástæðum þeim sem hér hafa verið raktar er í þessu frumvarpi lagt til að félögum sem eru með skattskylda starfsemi hér á landi verði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, veitt heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli, en skattstofnar verði áfram tilteknir í íslenskum krónum.

Kostnaður ríkissjóðs á ársgrundvelli vegna þessarar ráðstöfunar er talinn óverulegur þar sem búist er við að fyrirtæki sem taki upp slíkt bókhald verði ekki mörg. Þó má gera ráð fyrir einhverri vinnu við mat á umsóknum hjá ársreikningaskrá og við eftirlit með því að settum skilyrðum sé fullnægt.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem mörgum þingmönnum er að góðu kunnugt og sem margir þingmenn hafa kallað eftir og hvatt til að flutt yrði. Ég tel ekki ástæðu til að fara frekari orðum um frv. en geri mér grein fyrir því og vil taka það fram að í því eru nokkur álitaefni sem rétt er að efh.- og viðskn. kanni sérstaklega og leiti eftir skoðunum á hjá fagaðilum. Einnig er rétt að geta þess að í ráðuneytinu hefur verið unnið frekara starf í tengslum við þetta mál í samvinnu við ýmsa aðila sem málið er skylt, endurskoðendur og fleiri, og vænti ég þess að það starf geti einnig komið að góðum notum í starfi hv. efh.- og viðskn.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til þeirrar nefndar og til 2. umr.