Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:43:06 (3638)

2002-01-28 16:43:06# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frv. er lagt fram í kjölfar og er niðurstaða fundar milli sjútvrh. og Landssambands smábátaeigenda um breytingu á lögum um veiðar dagabáta.

Meginbreytingarnar felast í að koma í veg fyrir að hægt sé að minnka dagabáta í þeim tilgangi að fjölga sóknardögum. Þá er tekið upp nýtt fyrirkomulag eftirlits með tilkomu sjálfvirka tilkynningarkerfisins til að tryggja nákvæma mælingu á því með hvaða hætti tími sóknarbáta nýtist og sóknin mæld í klukkustundum. Einnig er lagt til að dögum verði á ný fjölgað í 23 á þessu ári svo samanburður milli ára verði sem marktækastur. Að þessu samanlögðu eiga að liggja fyrir upplýsingar sem hægt er að byggja á við frekari mótun dagakerfisins.

Fyrirkomulag þetta verður endurskoðað við lok veiðitímabils dagabáta 2002 og er sérstaklega litið til þess hvort breytt fyrirkomulag tímamælinga hafi í för með sér breytta sóknargetu.

Ég mun nú, herra forseti, fjalla örlítið ítarlegar um einstakar breytingar.

1. Fallið verði frá því að sóknardögum fækki í 21 dag á fiskveiðiárinu 2001/2002 og verði sóknardagarnir 23 eins og þeir voru á fiskveiðiárinu 2000/2001. Í frumvarpinu er viðmiðunarþorskafli báta sem stunda veiðar samkvæmt þessari grein tilgreindur sem 0,67% af heildarafla í þorski, auk þeirrar aukningar sem leiðir af endurvali báta sem rétt eiga til slíks samkvæmt lögum sem samþykkt voru í desember 2001. Þegar núgildandi ákvæði var sett var ekki unnt að tilgreina viðmiðunarafla þessara báta nákvæmar en gert var. Gert er ráð fyrir að fjöldi sóknardaga á næstu árum ráðist síðan af afla þeirra með sama hætti og gildandi ákvæði kveður á um, en orðalaginu er breytt með hliðsjón af því að fjöldi sóknardaga hvers báts geti breyst, bæði vegna flutnings sóknardaga milli báta og skerðingarákvæða laganna.

[16:45]

2. Reglum um nýtingu sóknardaga verði breytt þannig að sókn verði mæld í klukkustundum en ekki heilum dögum. Beiðni um slíka breytingu hefur ítrekað komið frá þeim sem stunda veiðar samkvæmt þessu kerfi og hafa þeir einkum rökstutt hana með því að slíkt fyrirkomulag leiddi til þess að sjómenn væru lengur að veiðum í vafasömu veðri þar sem hver róður teldist heill dagur. Þá hefur verið á það bent að þetta fyrirkomulag leiddi til mikils vinnuálags. Varðandi þetta atriði er lagt til í frv. að Fiskistofa hafi eftirlit með nýtingu sóknardaga um hið sjálfvirka tilkynningarkerfi en til þessa hefur eftirlit farið fram í gegnum svonefndan ,,símakrók`` sem Fiskistofa kom á laggirnar í þessu skyni. Með því að veita Fiskistofu aðgang að hinu sjálfvirka tilkynningarkerfi er ljóst að eftirlit með veiðum þessara báta verður mun virkara en verið hefur til þessa.

3. Í gildandi ákvæði segir að séu sóknardagar fluttir milli báta skuli þeim fjölga eða fækka í hlutfalli við stærð bátanna. Í frv. þessu er lagt til að sú breyting verði gerð að sóknardögum fjölgi ekki séu þeir fluttir á minni bát. Ástæða þess að þessi breyting er lögð til er sú að fjölgun sóknardaga með flutningi til báts sem mældur er minni í brúttótonnum en sá bátur sem flutt er af hefur vísast þær afleiðingar að við endurnýjun báta verði mjög reynt að mæla hina nýju báta sem minnsta. Þykir af ýmsum orsökum nauðsynlegt að sporna við slíkri þróun og þá sérstaklega þegar litið er til þess að skráð stærð í brúttótonnum segir ekki allt um veiðihæfni.

4. Að lokum, herra forseti, skal þeirrar breytingar getið að í 4. mgr. 1. gr. frv. er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglur um flutning sóknardaga milli báta í eigu sömu aðila. Þykir nauðsynlegt að hafa slíka heimild. Að öðrum kosti gæti aðili sem við endurnýjun flytur daga milli báta sinna lent í því að sóknardagar hans skertust vegna ákvæða laganna sem tengja heimild til flutnings sóknardaga nýtingu sóknardaga á tilteknum fiskveiðiárum.

Að lokinni 1. umr., herra forseti, legg ég til að málið verði sent til hv. sjútvn.