Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:47:30 (3639)

2002-01-28 16:47:30# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eitt af síðustu verkum Alþingis fyrir jólahlé þingmanna var að afgreiða frv. til laga um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Það frv. tók á tiltölulega afmörkuðum þætti, þ.e. nánast eingöngu var fjallað um málefni krókaaflamarksbáta. Það var jú eitt ákvæði sem allir þingmenn gátu sameinast um sem sneri að tilraun til að takast á við brottkast en að öðru leyti sneri það frv., og síðan lagasetning, fyrst og fremst að krókaaflamarksbátum.

En í nál. meiri hluta hv. sjútvn. kom það hins vegar fram að menn í meiri hlutanum vildu og ætluðu sér að koma hér inn með frv. um dagabáta fyrir 1. febrúar. Og herra forseti, hér er það frv. komið.

Í nál. voru tilteknir ákveðnir þættir sem menn töldu mikilvægt að ættu að felast í þessu frv. Þeir eru svo sem ekki hér í textanum en verða ugglaust ræddir í hv. sjútvn. þegar hún fer yfir málið. Hér er hins vegar verið að leggja til að gerð verði ákveðin tilraun sem er góðra gjalda verð.

Það er alveg ljóst að menn hafa mjög gagnrýnt fyrirkomulagið varðandi dagana, varðandi það að menn hafi tiltekna daga og síðan sé mælt í sólarhringum. Og mjög hefur verið þrýst á um að það fyrirkomulag yrði endurskoðað. Nú ætla menn greinilega, miðað við þetta frv., að fara í tilraun með nýtt fyrirkomulag, með klukkutímafyrirkomulag, og að hið sjálfvirka tilkynningarkerfi muni þá verða virkt þannig að menn geti fylgst mjög grannt með ferðum þessara báta.

Eins og ég sagði, herra forseti, er slík tilraun góðra gjalda verð ef menn vita þá að henni lokinni hvort gerlegt er að vinna að málinu með þessum hætti og hvort hægt er að halda utan um veiði dagabáta og sókn með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég held líka, herra forseti, að það sé afskaplega brýnt að bregðast við eins og hér er gert með breytingu á lögunum þar sem fjallað er um færsludaga á milli báta eftir stærð. Í gildandi lögum er það þannig að ef dagar eru fluttir á milli báta sem eru mismunandi að stærð á það að hafa áhrif á þann dagafjölda sem sá bátur fær sem kaupir dagana eða dagarnir eru fluttir á.

Það hefur komið í ljós að hugkvæmni manna hefur leitt þá til þess að fara í að mæla báta niður, ef það má orða það þannig, eða minnka þá til að fjölga dögunum. Það er auðvitað alveg ljóst, herra forseti, að ef menn ætla að vinna hér með sóknardagakerfi þarf að vera í gangi ákveðin flotastýring og þar með stýring á því hvað flotinn getur verið stór og öflugur, og liður í því hlýtur auðvitað að vera það að reyna að hafa eitthvert kontról á því hvernig dögum fjölgar eða fækkar eftir því hvernig þeir eru fluttir til á milli báta.

Ég tel a.m.k. fulla ástæðu til að skoða þessi atriði og nefndin mun ugglaust kynna sér út í hörgul hvaða hræringar hafa átt sér stað meðal þeirra dagabátaeigenda sem nú eru komnir af stað, annaðhvort í það að stækka eða minnka bátana sína, aðallega minnka skilst mér, eða láta smíða nýja, til þess að nýta sér þá möguleika sem kunna að felast í því að færa daga á milli báta.

Að öðru leyti, herra forseti, sýnist mér að hér sé aðeins eitt atriði sem skiptir máli og það er að fallið er frá því að sóknardögunum fækki í 21 dag og látið við það sitja að þeir séu 23.

Nú er það alveg ljóst að sóknardögum var fækkað vegna þess að þessir bátar höfðu veitt upp fyrir það hámark sem þeim er reiknað samkvæmt margumtöluðu samkomulagi um það hver á að eiga hvað inni í þessu kerfi. Eigi að síður er hér lagt til að dagarnir verði áfram 23 og mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvað útreikningar hans eða ráðuneytisins segi um aukningu afla miðað við þessar forsendur. Þá er ég ekki bara að tala um að dagarnir verði áfram 23 heldur vil ég líka fá svör við því hvað klukkutímamælingin getur aukið aflann mikið að mati þeirra sem hafa skoðað málið fyrir hönd hæstv. ráðherra. Ég held nefnilega að það hljóti að leiða af að það fyrirkomulag sem hér er lagt til muni í mörgum tilfellum auka sóknina og gera mönnum kleift að veiða meira en þeir gerðu ráð fyrir. Þá er auðvitað mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hvað er verið að bæta miklu í þennan pott og hvort það verður þá gert með formlegum hætti.

Samkvæmt þessu frv. á það ekki að vera. Hér er talað um 0,67% af heildarafla í þorski, auk þeirrar aukningar sem leiðir þá af endurvali báta. Það væri fróðlegt fyrir okkur, herra forseti, og eðlilegt að hv. sjútvn. ynni síðan með þær upplýsingar --- að komast á snoðir um hvað menn telja að þær breytingar sem hér eru lagðar til, annars vegar að dagarnir verði áfram 23 og hins vegar klukkutímar í staðinn fyrir sólarhringa --- hvað útreikningar hæstv. ráðherra segi okkur að það geti aukið afla þessara báta mikið.

Þegar umræður fóru fram um sjávarútvegsmálin í tengslum við það frv. sem var til afgreiðslu á hv. Alþingi fyrir jólahlé heyrðist mér a.m.k. hæstv. sjútvrh. binda við það vonir að ekki aðeins frv. um málefni dagabáta kæmi inn í þingið í upphafi vorþings heldur einnig frv. sem lyti að öllu almennari og meiri breytingum á lögunum um stjórn fiskveiða. Miðað við orð ráðherra gat maður satt að segja vænst þess að slíkt frv. kæmi á borð alþingismanna strax á fyrsta eða öðrum degi. Síðan hafa þau tíðindi borist að líklega birtist slíkt frv. ekki alveg á næstunni. Og við verðum að sætta okkur við það, þingmenn, rétt eina ferðina að afgreiða breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða í þeim bitum sem hér er boðið upp á, með tilraunum til tiltekins tíma, þannig að það er alveg ljóst að ekkert lát verður á frumvörpum til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða.

Nú síðast eru fréttir af því að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, í þessu tilfelli útvegsmenn og sjómenn, hafi gert með sér ákveðið samkomulag sem þeir beina til hæstv. sjútvrh. og ætla sér með því að hafa áhrif á þá lagasmíð eða þá frumvarpssmíð sem væntanlega er í gangi í ráðuneyti hans.

Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, í þessari umræðu, og það fyrr en síðar, að hæstv. sjútvrh. geri okkur sæmilega grein fyrir því við hverju er að búast í þessum efnum, einkum hvort hann reiknar með því að frv. hans til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða --- sem átti einhvern tímann að vera heildarendurskoðun á lögunum --- er væntanlegt alveg á næstunni. Það er auðvitað svolítið hjákátlegt að tala um heildarendurskoðun á sama tíma og verið er að afgreiða eða fjalla um annað smábátafrv. á vetrinum en þetta er einfaldlega sú staða sem hæstv. sjútvrh. stendur frammi fyrir. Menn eru afskaplega tilbúnir til að taka á málefnum smábátanna en hitt er látið liggja.

Jafnframt væri auðvitað býsna áhugavert fyrir okkur sem hér störfum að átta okkur á því hvaða vægi það samkomulag sem sjómenn og útvegsmenn hafa gert hefur inn í þá frumvarpssmíð, þá vinnu sem er í gangi í ráðuneytinu. Þar er auðvitað komið fram með atriði sem keyra nokkuð þvert á það sem meiri hluti svokallaðrar endurskoðunarnefndar skilaði frá sér og manni finnst að það sé í rauninni verið að núlla það álit út ef hæstv. sjútvrh. og hans menn við frumvarpssmíðina ætla sér að taka mark á þessu samkomulagi og nýta það. Ég ætla ekki að fjalla um einstök atriði í því á þessu stigi, herra forseti, ég geri ráð fyrir að til þess gefist betri tækifæri síðar. En mig langar að vekja athygli á einu, og ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hv. Alþingi átti sig á því sem kannski sem stendur upp úr þegar þetta samkomulag er skoðað, en það er sú staðreynd að þessir aðilar gátu gert samkomulag, að sjómenn og útvegsmenn gátu samið.

Við höfum hér á hinu háa Alþingi staðið frammi fyrir því, eða verið látin standa frammi fyrir því, reglulega undanfarinn áratug að setja yrði lög á deilu sjómanna og útvegsmanna vegna þess að það hefur átt að heita svo að þessir aðilar gætu ekki samið. Sjómenn hafa reyndar jafnan haldið því fram að þeir gætu það víst en einhvern veginn hefur þessi hótun um yfirvofandi lagasetningu ekki virkað nægilega á báða aðila, ekki rekið þá til samninga með þeim hætti sem vænst hefur verið, þannig að endirinn hefur jafnan orðið sá að Alþingi hefur sett lög og það fullyrt af hálfu meiri hluta og þeirra hæstv. sjútvrh. sem hlut hafa átt að máli að þetta yrði að gerast vegna þess að þessir aðilar gætu ekki samið.

Það er þess vegna, herra forseti, býsna dýrmæt lexía fyrir okkur sem höfum staðið frammi fyrir þessu nokkrum sinnum að uppgötva það núna að sjómenn og útvegsmenn gátu samið þegar þeir höfðu til þess tóm og frið. Það ætti líka að segja stjórnvöldum nokkuð um það hverju vinnubrögð þeirra hafa skilað á undanförnum árum.

Það er líka svolítið merkilegt, herra forseti, að þær tillögur sem meiri hlutinn í endurskoðunarnefndinni náði samkomulagi um virðast samanlagt hafa verið meira ógnvekjandi fyrir þessa aðila en yfirvofandi lagasetning var, a.m.k. fyrir útvegsmenn, þegar slíkt stóð til.

En það er alveg nauðsynlegt, herra forseti, að við hér, þingmenn, sem höfum þurft að taka þátt í vinnu í miklum spreng reglulega á undanförnum árum vegna þess að stjórnvöldum hefur legið svo á að setja lög á sjómenn og útvegsmenn af því að þeir gætu ekki samið --- þetta er svona nokkuð merkileg niðurstaða fyrir okkur --- íhugum mjög vandlega á hvaða vegferð Alþingi hefur verið við þessar lagasetningar.

Þeir gátu sem sé samið, herra forseti, og það er út af fyrir sig ágætt þó að menn séu kannski misánægðir með niðurstöðu þeirra samninga.

Herra forseti. Ég hef á þessu stigi ekkert frekara um þetta mál að segja. Ég geri ráð fyrir að sjútvn. fari yfir og vinni með þær upplýsingar sem ég vænti að hæstv. ráðherra hafi um það hvaða áhrif þessi dagafjölgun á ný og það að breyta úr sólarhring í klukkutíma hafi í för með sér, og að við förum einnig vandlega yfir þá möguleika sem hafa opnast við þá löggjöf sem tók gildi 1. sept. sl. --- hvað þetta atferli, að hægt sé að færa daga af stærri bát á minni og fjölga þeim þá, hefur kallað fram hér meðal dagabátaeigenda.

Svo vænti ég þess auðvitað að hæstv. sjútvrh. svari öðrum þeim spurningum sem hér koma fram um stöðu hinnar stóru endurskoðunar almennt og þá jafnframt hvaða áhrif samkomulag sjómanna og útvegsmanna hafi í því efni.