Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 17:02:40 (3640)

2002-01-28 17:02:40# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. um veiðikerfi smábátanna, þ.e. sóknardagaútfærsluna, sem var boðað í áliti meiri hluta sjútvn. þegar við afgreiddum þessi mál fyrir jól að því leyti sem sneri að hinum svokölluðu krókaaflamarksbátum.

Rétt er að láta þess getið í upphafi máls að stór hluti þeirrar tillögu sem hér er til umræðu og hæstv. sjútvrh. kynnti í framsögu sinni er í raun útfærður á sama hátt og brtt. sem við þrír hv. þm., sá sem hér stendur, Karl V. Matthíasson og Árni Steinar Jóhannsson, fluttum við frv. sem hér var til afgreiðslu fyrir jól um útfærslu á veiðum dagabátanna. Í þetta frv. vantar þó botn í dagana en það var inni í tillögu okkar. Við lögðum til að settur yrði botn í dagana miðað við 23 daga og þannig sett ákveðin festa í þetta kerfi til einhvers tíma, þó það segi auðvitað ekkert um það að einhvern tíma þyrftu menn kannski að skoða útfærslu þessa kerfis.

Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvort ég hef skilið það rétt sem hann sagði áðan, en mér fannst hann segja að í framhaldi af þessum breytingum á sóknardagakerfi smábátanna megi vinna að frekari þróun þess kerfis. Má skilja þessi orð svo, hæstv. ráðherra, að hér með sé verið að lýsa því yfir að ekki standi til að leggja þetta kerfi niður heldur sé ætlunin að þróa það til framtíðar og að í raun sé ekki settur botn í dagana nú vegna þess að menn í sjútvrn. og Fiskistofu vilja sjá hvernig framkvæmdin tekst á þessu kerfi miðað við bæði þann fjölda báta sem í því verða og eins vegna þess ákvæðis sem hér er inni um tímamælingu og eftirlit og framkvæmd? Megum við hv. þingmenn vænta þess að þetta sé yfirlýsing um að ekki standi til að leggja þetta kerfi niður heldur eigi þróa það frekar?

Þýðir það að ekki er botn í dögunum í þessari tillögu, sem er það eina sem vantar inn í frv. að mínu mati miðað við þá brtt. sem við þrír hv. þm. lögðum fram fyrir jól, að verið er boða að skoða þurfi útfærsluna á hvernig eftirlitið takist, en að alls ekki standi til að leggja þetta kerfi niður heldur sé komin sátt um það meðal stjórnarflokkanna að viðhalda því og menn vilji aðeins sjá hvernig það þróist? Þetta er spurningin sem ég legg fyrir ráðherrann í tilefni af orðum hans áðan.

Ég ætla ekkert að hafa mjög langt mál um þetta frv. Eins og ég sagði í upphafi er þetta að stórum hluta sett upp með sama hætti og hefur sömu áhrif og við lögðum til í brtt. okkar fyrir jól. Ég tel það gott að menn skuli hafa drifið í því að koma með þetta frv. hér inn og einnig að það komi hér inn innan þeirra tímamarka sem meiri hlutinn í sjútvn. boðaði. Ef það liggur fyrir að það sé vilji manna að viðhalda þessu kerfi til framtíðar og menn vilji aðeins staldra við eitt fiskveiðiár til að sjá svona framkvæmdina þá, ef ég má skilja þetta svo --- ég vona að ráðherra svari því skýrt á eftir hvaða hugsun felst í þeim orðum sem hann viðhafði áðan.

Ég vil hins vegar aðeins gera að umræðuefni það sem komið hefur í ljós sem afleiðing kvótasetningar smábátanna frá því að síðasta fiskveiðiár hófst þann 1. september sl. Það sem menn óttuðust auðvitað og vöruðu við var að þessi kvótasetning mundi hafa veruleg áhrif á úthald og afkomu þessa útgerðarþáttar annars vegar og hins vegar í framhaldi af því að með minnkandi afla mundi þetta hafa veruleg áhrif á atvinnustigið í byggðunum þegar fram í sækti og veikja þá undirstöðu sem byggðirnar hafa verið að byggja á, sérstaklega þær sem hafa reynt að búa sér til vörn í veiðikerfi smábátanna gegn þeim mikla bresti sem orðið hefur í aflaheimildum í byggðarlögum í hinu stóra aflamarkskerfi eða almenna aflamarkskerfinu, eins og t.d. í fjölmörgum byggðum Vestfjarða þaðan sem aflamarkið hefur nánast horfið og er nánast ekkert eftir nema hið nýja krókaaflamark annars vegar og hins vegar handfærabátar á dagatakmörkunum.

Til þess að varpa aðeins ljósi á þetta held ég að rétt sé að bera örlítið saman tölur frá fyrstu fjórum mánuðum þessa fiskveiðiárs sem nú er, þ.e. frá 1. september til áramóta annars vegar og fiskveiðiársins þar á undan meðan kvótasetningin var ekki komin til framkvæmda á smábátana. Þessar tölur segja okkur ef við lítum á þær tegundir sem smábátaflotinn hafði frelsi til að veiða í að hægt var að byggja upp þó nokkrar tekjur ef vel aflaðist hjá þessum útgerðarþætti. Þeir sem gerðu út smábáta voru þá að fá tekjur sem dugðu þeim jafnvel til að tryggja sér aflaheimildir í þorski og það er ekki lítilvægt atriði þegar aflaheimildir eru jafndýrar og þær eru orðnar að þeir sem voru að hefja útgerð smábáta margir hverjir voru þá að fá tekjur af þessum aukategundum til þess að komast kannski smátt og smátt inn í veiðikerfið með því að kaupa sér þorskheimildir.

Þess vegna hefur sá samdráttur sem orðið hefur við kvótasetningu smábátanna víðtækari áhrif en bara tonnin segja til um og er þó nógur samdráttur í þeim, eins og ég mun skýra á eftir. Þær tölur sýna að krókabátarnir veiddu á fyrstu fjórum mánuðum fiskveiðiársins, þ.e. í hittiðfyrra, tæp 4.700 tonn á haustmánuðum árið 2000. Á haustmánuðum árið 2001, eftir að vera komnir í kvótakerfið, í krókaaflahlutdeildarkerfið, veiddu krókabátarnir hins vegar 2.317 tonn eða alveg um helmingi minni afla en þeir veiddu á fyrstu fjórum mánuðum fiskveiðiársins á undan. Svona kemur þetta út á landsvísu.

Við höfum varað við því að þetta kæmi verr út í sumum landshlutum sem væru háðir krókaveiðunum en öðrum og þetta mundi vega á ný að þeim byggðum sem í raun voru veikastar fyrir að þessu leyti, voru búnar að missa mest frá sér af hinu almenna aflamarki, og sjómenn hafa þar af leiðandi verið að kaupa sig inn í þetta smábátakerfi í nauðvörn og verja þannig atvinnu sína, eignir og byggðir. Þess vegna mundi þetta hafa meiri áhrif í sumum byggðarlögum en kannski á landsvísu.

Það er akkúrat þetta sem hefur komið í ljós, og ég ætla hér að vitna til þess, því að í kjördæmi mínu á Vestfjörðum hefur þetta haft þau áhrif að tæplega helmingur af samdrætti alls ýsuaflans á landsvísu hjá krókabátunum hefur komið fram hjá bátum á Vestfjörðum. Samdrátturinn í ýsuafla krókabátanna á Vestfjörðum er slíkur að það vantar eiginlega alveg um 1.000 tonn, þ.e. helmingurinn af samdrættinum á landsvísu kemur fram bara á Vestfjörðum. Ef ég ber þessar tölur nákvæmlega saman þá voru á haustmánuðum árið 2000, frá 1. september--31. desember, veidd á Vestfjörðum rúmlega 2.022 tonn af ýsu. En á síðasta ári, á fyrstu fjórum mánuðum hins kvótasetta fiskveiðiárs, veiddu þessir sömu bátar aðeins 1.085 tonn. Það er sem sagt helmingssamdráttur á Vestfjörðum. Á Vestfjörðum einum kemur fram helmingssamdráttur af þeim afla sem dregst saman um á landsvísu, þ.e. rúmlega 2.300 tonn.

Þetta hefur alveg gríðarleg áhrif og veldur ekki bara, eins og ég sagði áðan, tekjuminnkun fyrir þessar útgerðir heldur setur menn líka í ákveðinn vanda við að reyna að komast inn í kerfið með frekari kaupum á þorskaflahámarki eða krókaaflahlutdeild í þorski því einhvers staðar þurfa menn að fá tekjurnar til að geta keypt þetta eða þá tekjur til að borga þetta til baka.

Hlutfallslega má segja að dæmið sé svipað í steinbít og ufsa. Þar eru tölurnar hins vegar miklu lægri enda þekkt að haustmánuðirnir hafa jafnan verið besti tíminn til ýsuveiða á Vestfjörðum. Þar hefur þetta þess vegna komið harðast niður. Og þetta verður auðvitað til þess að þeim sem hafa verið að koma sér þarna fyrir reynist mun það erfiðara en ella væri og jafnvel svo að vafalaust munu einhverjir gefast upp á því dæmi.

Þetta vildi ég draga fram í umræðunni þó að ýmislegt fleira megi svo sem lesa út úr þessum tölum á landsvísu. Það sést t.d. að togararnir hafa aukið ýsuafla sinn verulega á haustmánuðum, eða úr 4.700 tonnum í 6.600 tonn, á sama tíma og hann dregst saman um helming hjá krókabátunum. Ufsaaflinn hefur einnig aukist hjá togaraflotanum um tæplega 1.500 tonn. Einnig er aukning á ýsuaflanum hjá öðrum aflamarkskipum en togurum.

[17:15]

Ljóst er að það var ekki skortur á ýsu á miðunum sem gerði það að verkum að krókaaflinn dróst svona saman. Það sýna veiðitölur annarra skipa. Enda hefur hæstv. sjútvrh. komist að sömu niðurstöðu með því að auka kvóta í ýsu um 11.000 tonn. Einnig hefur ufsakvótinn verið aukinn og aflabrögðin benda í þá átt að aukning sé í ufsagengd á miðunum.

Hvort tveggja sýnir því að samdrátturinn í veiðum krókabátanna stafar ekki af minnkandi fiskigengd en sennilega að stórum hluta eða stærstum hluta af því að kvótasetningin á smábátana átti sér stað. Þetta er afleiðingin sem við vorum að benda á í umræðum um smábátana og hvaða áhrif kvótasetning á þá mundi hafa á byggðarlögin. Og ljóst er eins og ég hef dregið hér fram með tölum að Vestfirðir fara verst út úr þessu dæmi miðað við fyrstu fjóra mánuði fiskveiðiársins.

Þess vegna var ekki undarlegt að við, m.a. þingmenn Vestfjarða ásamt nokkrum öðrum, skyldum hafa af því verulegar áhyggjur að fara þá leið. Varla verður séð að það hefði þurft að fara þá leið miðað við það sem hefur þó verið gert í þessum málum eftir að sú ákvörðun var tekin af ráðuneytinu og hæstv. sjútvrh. að auka við aflaheimildir í þessum tegundum.

Ég er enn þá á þeirri skoðun að mun gæfulegra hefði verið að setja takmörkun á dagafjölda bátanna í þorskaflahámarkskerfinu og hafa þannig áhrif á aflann án þess að setja mönnum þessi ströngu skilyrði og þennan geysilega mikla niðurskurð í tekjumöguleikum. Ég er alveg viss um að ef svona hefði staðið í bólið gagnvart stórútgerðinni, að ekki væri bara verið að skera niður þorskinn á milli ára eins og hefur verið gert í tvígang yfir allan flotann, heldur bættist við tvöföld skerðing til viðbótar í aukategundum, tegundum sem skipta verulegu máli í aflabrögðum á Vestfjörðum, ýsu og steinbít, þá hefðu menn nú aldeilis borið sig illa.

Ég er ansi hræddur um, þó að ég voni vissulega að menn þrauki og komist í gegnum þetta, að tekjuskerðing manna um helming á milli ára, fyrst tvisvar sinnum niðurskurður í þorski og síðan kvótasetning í ýsu og kvótasetning í steinbít, þýði í mörgum tilvikum að útgerðin muni þurfa að standa frammi fyrir lækkun í tekjum svo nemur um helming. Það er einfaldlega of í lagt að fara þannig í málin, að gera það róttækar breytingar að tekjusamdráttur í útgerð breytist um helming til lækkunar á milli ára. Það á við um alla útgerð í landinu. Og þótt menn væru hér að breyta lögum almennt um stjórn fiskveiða, þá yrðu menn auðvitað að hafa það að markmiði að slíkt ætti sér ekki stað. En það átti sér stað nú á haustdögum varðandi smábátana.