Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 17:20:45 (3641)

2002-01-28 17:20:45# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[17:20]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Enn er hér verið að ræða frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Slík frv. koma oft fram til þess að reyna að laga þá agnúa sem eru á lögunum. Reyndar er það svo að hæstv. sjútvrh. hefur boðað að hann muni leggja fram frv. til laga um stjórn fiskveiða og eru ýmsir aðilar búnir að senda honum skoðanir sínar á því hvernig best væri að hafa þau lög, þ.e. samtök sjómanna og LÍÚ. En þó að þeir aðilar vinni við slík störf og komi nálægt þeim, þá hljótum við að hafa það í huga þegar við fjöllum um svo mikilvæg mál að auðlindin í kringum landið, hafið og nytjastofnarnir í hafinu eru sameign íslensku þjóðarinnar. Og það hljóta náttúrlega fleiri að koma að þeim málum en eingöngu samtök sjómanna og Landssamband íslenskra útvegsmanna. Eins og við vitum eru útflutningsverðmæti sjávarútvegsins ein þau mestu og þetta er stærsta atvinnugrein þjóðarinnar.

En hér er eins og ég sagði lítið frv. sem fjallar um breytingar á lögum um krókabátana. Gert er ráð fyrir því að í stað þess að það séu dagar sem menn rói eftir --- hafi leyfi til að róa 23 daga, þá er talað um klukkustundir. Má þá spyrja hvort bátunum verði þá úthlutað 552 klukkustundum hverjum. Og hvort menn geti þá í þessu kerfi framselt klukkustundir en ekki daga. Mun maður sem er í slíku kerfi geta selt eða leigt öðrum t.d. tvær, þrjár klukkustundir?

Í frv. sem samþykkt var á Alþingi fyrir jólin um smábátana kom fram að þeir sem voru á 40 dögum og fengu 30 tonn geta valið á milli dagakerfisins og krókaaflakerfisins. Vaknað hafa spurningar hjá ýmsum um það hvort einhvern tímann hafi komið inn í umræðuna að aðrir bátar, sex tonna bátar sem eru í stóra kerfinu sem kallað er, mættu þá velja sig líka inn í dagakerfið. Því að á sínum tíma voru sumir sem völdu sig inn í það kerfi, stóra kerfið, en hafa orðið fyrir mjög miklu tjóni vegna þess hversu mikil skerðingin hefur verið og þeir hafi í raun og veru vegna þessa vals orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni samanborið við hina sem t.d. núna velja dagana í staðinn fyrir að fara yfir á krókaaflahámarkið.

Mig langar til að segja það hér í umræðunni að áður fyrr voru smábátar náttúrlega miklu minni en þeir eru í dag. Og geta þeirra til þess að sækja sjóinn var einnig miklu minni en er í dag. Flestir eru komnir með miklar og öflugar vélar og geta flengst nokkuð um sjóinn, ólíkt því sem áður var. Stundum hefur hvarflað að mér að spyrja hæstv. ráðherra hvað honum fyndist um það að til væri flokkur báta sem hefði 30 hestafla vélar eða minna sem mættu vera á handfærum og frjálsum veiðum. Löngum hefur verið í allri þessari umræðu talað um frjálsar veiðar á handfæri og færð fyrir því rök að það skaði ekki mikið. En aðrir hafa mælt á móti því vegna þess að vélar báta eru orðnar svo kröftugar, bátarnir stórir og þetta séu orðin öflug fiskiskip mörg hver. En eftir situr samt sú spurning hvort hæstv. ráðherra sjái þetta fyrir sér.

Við getum hugsað okkur gamlan trébát sem fer ekki nema fjórar, fimm, sex, kannski sjö mílur og getur ekki róið nema í mestu blíðum og aðeins út fyrir bryggjuna, hvort slíkir bátar megi ekki vera á frjálsum handfæraveiðum. Og minnir það nú á þegar bændur og aðrir sem höfðu tækifæri til að róa fáeina daga á ári, þeir gátu það og aflað smátekna með slíkum veiðum.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að það eru margir sem eiga báta og hafa haffærnisskírteini en eiga engan kvóta eða enga daga. Eigendur þeirra báta mega róa á þeim og þeir mega veiða í soðið. En eigendur þessara báta þurfa að greiða öll gjöld, hafnargjöld og fleiri gjöld sem koma undir skipaskráninguna, en hafa ekki nokkurn einasta möguleika til að afla sér smátekna. Því spyr ég hæstv. ráðherra um þetta.

En auðvitað verður að segja eins og er, ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli koma með þetta frv. því það felur í sér góð ákvæði. En ég minni hann á að a.m.k. tvö þeirra voru í frv. sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, Árni Steinar Jóhannsson og ég lögðum fram. Þetta er nánast mjög í sama anda og væri það nú mótsagnarkennt ef við værum á móti þessu frv. og mæltum ekki með því. Því við þekkjum náttúrlega þá sögu að þeir sem voru á dögunum og reru til fiskjar og voru kannski búnir að vera úti á sjó í þrjá, fjóra, fimm klukkutíma en allt í einu skall á bræla og menn þurftu að snúa í land og vera snöggir að því, þá var sá dagur til einskis, þá voru þeir búnir að missa dag. Þetta er leiðrétting á þeim málum sem ég fagna og er glaður að sjá.

En það er spurningin um hvort menn muni þá geta framselt klukkutíma en ekki daga og hvort menn megi selja dagana og selja klukkustundirnar eða leigja þær eins og hefur stundum verið talað um.

Að lokum ítreka ég þá spurningu hvort hæstv. ráðherra gæti séð fyrir sér að bátar undir sex tonnum, sem eru í stóra kerfinu, geti fengið að velja sig inn í dagakerfið.