Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 18:32:31 (3647)

2002-01-28 18:32:31# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra varðandi að veiðiferðir gætu orðið styttri undir þessari útfærslu. Ég tek undir það með honum og held að það verði svo. Ég held að það sé hreinlega til bóta. Það ætti a.m.k. að nálgast það sjónarmið sem hæstv. ráðherra setti fram nýlega um að auka gæði og verðmæti aflans. Það hlýtur að leiða til þess að sá fiskur sem kemur að landi verður þá bara betri ef veiðiferðirnar verða styttri.

Ég tók eftir því áðan að hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að sá samanburður sem ég hef verið með milli fiskveiðiára væri óraunhæfur vegna óvissu um aflaheimildir til krókabátanna. Þetta var okkur mörgum þingmönnum ljóst og við lögðum það beinlínis til við hæstv. ráðherra þegar á sl. sumri þar sem við þóttumst sjá fram á hvaða staða kæmi upp í veiðum smábátanna að fresta gildistöku laganna ef hann væri ákveðinn í að fara þá leið, t.d. fram yfir áramót. Ég held að ég muni það rétt að Landssamband smábátaeigenda lagði það líka til einmitt vegna þess að óvissa yrði um framkvæmd laganna og óvissa yrði um aflaúthlutunina og það tækist einfaldlega ekki að vinna eðlilega undir slíkri stjórn.

Ég heyri að hæstv. ráðherra tekur undir þetta nú en furða mig þá á því að hann skyldi ekki hafa áttað sig á því fyrr í haust að þetta yrði einmitt niðurstaðan, menn væru með mjög óvissa framtíð varðandi kvótaúthlutunina, mjög litlar heimildir þar sem ekki var búið að bæta í þessa potta þar að auki og þar af leiðandi mundi aflinn verulega minnka og þetta mundi hafa geysileg áhrif tekjulega og atvinnulega séð í mörgum byggðarlögum. Ég heyri að nú er hæstv. ráðherra sammála okkur um að þetta hafi verið svo. Þetta var akkúrat það sem menn voru að benda á. Ég verð að segja það, hæstv. ráðherra, að stundum má nú hlusta á leiðbeiningar stjórnarandstöðunnar. Það getur verið landinu til góða frekar en halda sig við sína fyrstu túlkun.