Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 18:38:34 (3653)

2002-01-28 18:38:34# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðalkrafa þeirra sem hafa starfað í þessari grein og með þessa báta hefur verið sú að menn afléttu skerðingarákvæðunum sem eru núna 10% á ári. Hæstv. ráðherra hefur með frumvarpi sínu fallist á að fresta þeirri skerðingu sem átti að vera í vetur og ég held að það verði varla misskilið að það sé skref í þá átt að viðurkenna þá veiði sem hefur verið.

Ég held að engum detti í hug að það dragi úr veiði að taka upp klukkutímakerfið. Ef álíka veiði yrði áfram, þá mundi það vera út af fyrir sig eitthvað sem menn gætu sætt sig við en ég sé ástæðu til þess að menn horfist í augu við þann vanda sem er og hann er sá að menn þurfa að svara því hvort þeir vilja leyfa þessum flota að lifa eða deyja.