Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 18:39:53 (3654)

2002-01-28 18:39:53# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[18:39]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði áðan þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar og fyrir það er að þakka. Ég spurði reyndar hvort hann sæi fyrir sér að hægt væri að heimila bátum sem væru með 30 hestafla vélar og minni, sem eru án leyfis í dag, einhverjar heimildir til að veiða meira en í soðið til þess að geta staðið straum af kostnaði við hafnargjöld og annað.

Ég held að ekki sé rétt að taka svo djúpt í árinni sem hæstv. ráðherra gerði, að tala um að komið yrði á nýjum flokki báta. Þetta hljómaði mjög hátíðlega eins og verið væri að tala um einhverja stórútgerð. Allir vita að hér er um mjög litla báta að ræða, örugglega mjög fáa því langflestir bátarnir í þeim flokki sem við erum að tala um eru undir 6 tonnum, og þessir bátar eru örugglega minni en 3 tonn að stærð. Það er því ekki um mikið að ræða. Auk þess sem þetta gefur ákveðið frelsi og gefur mönnum, sem eru kannski orðnir rosknir og eru að fást við ýmislegt annað, t.d. búskap, tækifæri til að stunda sjóinn og eiga bát og gera út á fáein tonn vegna ánægju, gleði og tengsla við náttúruna.