Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:59:00 (3671)

2002-01-29 13:59:00# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi einmitt í lok andsvars síns mjög alvarleg atriði varðandi stöðu opinberrar þjónustu og hvernig hún væri í stórauknum mæli að skerðast úti um land. Er ekki einmitt ástæða til að ræða þetta? Er það kannski stefna ríkisstjórnarinnar að svo skuli vera? Er það?

Nei, ég lít svo á að a.m.k. á prenti sé hún allt önnur. Er það stefna Alþingis að svo skuli vera? Nei, því á prenti er hún ekki svo. Er ekki ástæða til að ræða það hvers vegna við náum ekki þeim markmiðum sem Alþingi sjálft hefur sett sér? Mér er spurn.

Megintilgangurinn með þessari tillögu okkar er að horfast í augu við það að markmiðin sem menn hafa sett sér hér hafa ekki gengið upp, og fjarri því. Menn sjá hlutina einmitt gerast úti um land en bara í þveröfuga átt við það sem Alþingi og ríkisstjórn hafa kveðið á um. Er ekki ástæða til þess að skoða hvernig snúa megi hlutunum við?

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi í andsvörum sínum einmitt rökstutt enn frekar mikilvægi þess að Alþingi taki þetta mál alveg sérstaklega fyrir, brjóti það til mergjar, bæti úr og snúi við þeirri þróun sem við nú horfum á.