Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:08:13 (3673)

2002-01-29 14:08:13# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Norðurl. e. fyrir að nefna Kolkuós og það svæði. Þetta er mikið menningarsvæði sem hefur kannski ekki verið gerð fullnægjandi skil, hvorki í tíð hans sem hæstv. landbrh. né annarra sem hafa þar farið með málin, sem eru nú í höndum hæstv. menntmrh. En þarna er hluti af lifandi menningararfleifð, hluti af hinum forna Hólastað og eins og hv. þm. kom inn á, hafa verið þar hin steindu gler í gegnum aldirnar. Þangað er gaman að koma. Ég hvet hv. þm. til að koma þangað sem oftast og við skulum ganga saman að því að finna út hvernig við getum gert þarna sem glæstast úr.

Í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. gekk hv. þm. skrefi lengra en við flm. tillögunnar þar sem hann hefur þegar hafið byggðaþingið, sem var ekki ætlun okkar frómt frá sagt, þ.e. að það hæfist strax. En gott og vel, innlegg hans í umræðuna er einmitt á þann veg. Ég leyfi mér því að spyrja hv. 1. þm. Norðurl. e. sem hefur þegar lagt atriði inn í umræðuna, sem öll skipta byggð og búsetu miklu máli, hvort hann muni þá ekki styðja þetta frv. af mikilli einlægni og eindrægni. Ég tel það eðlilegt, virðulegi forseti, í samræmi við málflutning hans. Ég vænti þess að hann veiti þessari tillögu öflugan stuðning og óska eftir svari frá hv. þm. um það.