Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:10:43 (3675)

2002-01-29 14:10:43# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. eru mörg mál mjög hugleikin. Hann nefndi fjölmörg atriði í ræðu sinni. Ef við víkjum sérstaklega að sauðfjárræktinni er ég ekki svo mikið í fortíðinni en ég hef áhyggjur af framtíðinni. Ég vil spyrja, ef hv. 1. þm. Norðurl. e. getur komið aftur upp í ræðu, hvað hann segir um þær reglugerðir sem nú er verið að þýða og setja yfir íslenska sauðfjárbændur, reglugerðir sem hæfa sauðfjárbúskap í Brussel, Luxemborg eða Hollandi.

Ég skal nefna dæmi. Merkingar á sauðfé, svokallaðar Evrópumerkingar á sauðfé þannig að kind fær merki um leið og hún fæðist sem maður skráir síðan í gagnabanka, væntanlega hjá Evrópusambandinu. Gott og vel. Þessu verður bóndinn að gæta mjög vel að. Hann verður að skila merkinu þegar kindinni er fargað. Það getur svo sem gengið. En týnist kindin á fjalli eða týni merkinu, þá er enginn til að gefa út dánarvottorð. Þá getur bóndinn lent í miklum vandræðum og verður kannski að leggja á sig reisu til Brussel til að sanna sakleysi sitt. Hvað finnst hv. 1. þm. Norðurl. e. og fyrrv. landbrh. um það sem núna er verið að gera, þ.e. að keyra reglugerðir fyrir sauðfjárrækt í Hollandi, í Lúxemborg og Belgíu yfir fjárbændur í hans kjördæmi?