Talsmaður útlendinga á Íslandi

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:52:33 (3692)

2002-01-29 14:52:33# 127. lþ. 62.7 fundur 52. mál: #A talsmaður útlendinga á Íslandi# þál., Flm. GÖ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um talsmann útlendinga á Íslandi.

Flutningsmenn með mér eru Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Karl V. Matthíasson, Rannveig Guðmundsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Gísli S. Einarsson og Guðjón A. Kristjánsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna embætti talsmanns útlendinga á Íslandi sem sinni hagsmuna- og réttindagæslu þeirra.``

Í greinargerðinni segir:

,,Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bjuggu 14.927 útlendingar á Íslandi um áramótin 1999 og 2000,`` --- þessi tala hefur hækkað talsvert núna --- ,,þar af 11.034 á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi, 1.231 á Vesturlandi og Vestfjörðum, 1.210 á Norðurlandi eystra og vestra, 561 á Austurlandi og 891 á Suðurlandi. Hér er um fjölda fólks að ræða sem oft á ekki auðvelt með að sinna hagsmuna- og réttindamálum sínum en mikilvægt er að þeim málum sé sinnt heildstætt svo að góð yfirsýn fáist. Ekki er síður mikilvægt að gera útlendinga meðvitaða um þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og tryggja að ekki sé gengið á lögbundinn rétt þeirra. Hlutverk embættis talsmanns útlendinga mundi auk fyrrgreinds vera að fylgjast með því að stjórnvöld og einkaaðilar tækju fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna útlendinga. Þá mundi hann aðstoða útlendinga við rekstur dómsmála, hvort sem um er að ræða einkamál eða opinber mál. Talsmaður útlendinga yrði samkvæmt fyrrgreindu hlutverki að vera löglærður.

Til að tryggja að talsmaður útlendinga geti gegnt starfi sínu sem best er jafnframt nauðsynlegt að kynningarefni á algengustu tungumálum, auk íslensku, um hlutverk hans og staðsetningu sé aðgengilegt á sem flestum opinberum stöðum, svo sem á landamærastöðvum og í menntunar- og heilbrigðisstofnunum. Þá er ljóst að miklu skiptir að greiður aðgangur verði að talsmanni útlendinga og því þarf embætti hans að vera staðsett miðlægt, t.d. í fyrirhuguðu alþjóðahúsi sem er væntanlegt samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en talsmaður mundi jafnframt vinna afar náið með væntanlegum landshlutamiðstöðvum. Stofnun embættis talsmanns útlendinga yrði því ekki síður mikilvægt og gagnlegt Íslendingum.``

Meiningin með þessari tillögu er auðvitað líka að leggja áherslu á að ríkið kosti eina stöðu, t.d. við alþjóðahús sem mundi auðvitað líka starfa mjög náið með stöðvum eins og setrinu fyrir vestan og á öðrum stöðum því að afar brýnt er að til staðar sé lagaþekking og sérfræðiþekking sem hægt er að leita eftir.

Ég tel enn fremur að það hafi aldrei verið brýnna en nú, og sérstaklega eftir 11. september, að vera á vaktinni gagnvart réttindamálum og mannréttindabrotum sem gætu átt sér stað. Við vitum líka, og það hefur m.a. verið gagnrýnt hér í þingsölum, að þessi málaflokkur er dreifður. Hann heyrir undir tvö ráðuneyti og alla heildarstefnumótun skortir. Það er afar mikilvægt að samhæfa og samræma þennan málaflokk og enn brýnna eftir því sem löggjöfin verður flóknari og ýmis tilmæli koma erlendis frá, bæði frá Evrópusambandi og annars staðar að, að ég tali ekki um varðandi eftirlit Sameinuðu þjóðanna, að hafa þetta allt á einni hendi.

Ég er mjög ánægð með að geta loks fengið að mæla fyrir þessari tillögu þannig að hún fari til umfjöllunar í nefnd og þar af leiðandi í umsagnir.