Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:08:36 (3696)

2002-01-29 15:08:36# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Í upphafi er rétt að árétta: Skilgreiningu á og tilgang með beinum greiðslum til bænda er að finna í búvörulögum. Með þessum greiðslum er ríkið að styðja við hefðbundna landbúnaðarframleiðslu, ekki íþyngja henni. Í 38. gr. jarðalaga er kaupréttur leiguliða á ríkisjörðum skilgreindur. Skilyrði fyrir kaupum er að sveitarstjórn og jarðanefnd mæli með kaupunum. Jörðin er síðan metin af óháðum aðila með tilliti til þess að þar haldi áfram landbúnaðarstarfsemi.

Með vísan í ofangreint væri viðkomandi bónda lítill akkur í stuðningi ríkisins ef honum væri gert að kaupa hann, ekki síst vegna þess að búvörusamningar eru tímabundnir og breytanlegir.

Fyrir tilkomu fullvirðisréttar og síðar greiðslumarks í mjólk og sauðfjárafurðum var framleiðsla þessara afurða frjáls á Íslandi og umframframleiðsla flutt út með útflutningsuppbótum. Við að fella niður útflutningsbótarétt þessara búgreina og leggja á þær framleiðsluhömlur til að takmarka framleiðsluna við innlendan markað hefur þess í síauknum mæli verið krafist að framleiðslustjórnunin yrði gerð að verslunarvöru sem búgreinarnar þurfa að greiða fyrir og auka á framleiðslukostnað greinanna, sem hefur þótt ærið nógur fyrir.

Við ákvörðun um að taka upp framleiðslutakmarkanir sem fylgi lögbýli var jafnframt ákveðið að jarðareiganda sé ekki frjálst að selja greiðslumark af jörð sem hann á og leigir öðrum til afnota nema komi til samþykki ábúandans. Að greiðslumark sé hluti af framleiðsluaðstöðu jarðarinnar en ekki söluvara sem unnt sé að aðskilja við sölu jarða kemur fram í verðlagningu mjólkur til bænda og á sauðfjárafurðum þar sem verðlagsnefnd búvara hefur ekki fallist á að meta til kostnaðar í verði afurðanna reiknuð verðmæti greiðslumarks.

Greiðslumark verðlagsgrundvallar bús fyrir mjólk er reiknað vera í dag 188 þús. lítrar. Væri það verðlagt á sjálfstæðan hátt og lagt til grundvallar útreikningi á fjárfestingarþörf við verðlagsgrundvallarbúið og afskrifað á tíu árum þyrfti mjólkurverð að hækka til bænda um 20--25 kr. á lítrann.

Á umræddu tímabili, þ.e. árin 1997--2001, hefur ekki verið heimilt að selja greiðslumark í sauðfé af lögbýli og flytja til annars lögbýlis. Við sölu ríkisjarða sem Ríkiskaup hafa auglýst og greiðslumark hefur fylgt við sölu kemur verðgildi framleiðsluaðstöðu jarðarinnar fram í söluverði hennar. Væri greiðslumark jarðarinnar undanskilið og settur á það verðmiði við sölu jarðanna á almennum markaði mundi það að sjálfsögðu leiða til lægri tilboða og það heildarverð sem fengist fyrir jörðina verða það sama. Því er rangt að halda því fram að verðmæti greiðslumarks við sölu ríkisjarða á almennum markaði sé í reynd undanskilið í verði þeirra. Kjósi kaupandi ríkisjarðar að selja frá sér framleiðslurétt rýrir hann um leið verðgildi jarðarinnar og skerðir nýtingarmöguleika fasteigna á jörðinni.

Allt er þetta leikur að tölum, hæstv. forseti, sem hægt er að reikna endalaust, sérstaklega ef menn skilja ekki grundvallarforsendur stuðnings ríkisins við þessa framleiðslu eða meginmarkmið jarðalaga.

Svar við 2. spurningu: Svo sem áður er fram komið hefur sala á greiðslumarki milli býla í sauðfé ekki verið heimil lögum samkvæmt. Markaðsverð þess greiðslumarks er því ekkert. Óraunhæft er að reikna verðgildi greiðslumarks mjólkur sem sérstök verðmæti nema gera sér grein fyrir þeim verðmætum í fjósum og öðrum mannvirkjum á jörðunum sem yrðu einskis nýt við að láta ábúendur greiða fyrir greiðslumark jarðanna markaðsverð til viðbótar jarðarverði og mannvirkjum sem ríkið á á þessum jörðum. Með því fyrirkomulagi væri áframhaldandi búskap þessara aðila sjálfhætt á jörðunum sem hefur ekki verið og verður aldrei stefna stjórnvalda. Rétt er að árétta það álit Ríkisendurskoðunar að mat á ríkisjörðum til áframhaldandi landbúnaðarstarfsemi sé í samræmi við ákvæði ábúðarlaga og jarðalaga.

Svar við 3. spurningu: Málflutningur ríkisins hefur fyrst og fremst verið sá að halda rétti jarða til streitu vegna þess að jarðeigendur hafa kaupskyldu að eigum ábúenda þegar ábúð lýkur. Sérstaklega vegna þessa ákvæðis hefur landbrn. ávallt haldið því fram að ekki væri hægt að skylda jarðareiganda til að kaupa byggingar ef stuðningur við framleiðsluna fylgir ekki, eins og hv. þm. leggur hér til. Nógu illa getur gengið að fá réttmæta leigu fyrir eignir ríkisins á ríkisjörðum þó að til viðbótar bætist ekki leiga fyrir stuðning ríkisins við framleiðsluna.

Lýk ég þá máli mínu, hæstv. forseti.