Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:16:22 (3698)

2002-01-29 15:16:22# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), KÓ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Þegar kvótakerfið var sett á upp úr 1980 var rétturinn skilgreindur sem eign jarðareiganda, þ.e. að rétturinn fylgdi jörðinni, moldinni, rétt eins og búfé, byggingar og ræktun á viðkomandi jörðum. Þessu var öðruvísi farið en með sjávarútveginn þar sem rétturinn til fiskveiða var tengdur þeim sem útgerðina stunduðu en ekki fiskvinnslunni eða byggðarlögunum. Þetta er að sjálfsögðu mismunur, og felst ekki síst í því að þeir sem búa á einkajörðum hafa átt þennan rétt, þeir geta verslað með hann og selt hann.

Eins og fyrr segir hefur ríkið talið sig eiga þann rétt sem á ríkisjörðum er og þess vegna hafa ábúendur þeirra jarða ekki getað selt hann. Þegar þeir hafa hins vegar viljað kaupa þær jarðir sem þeir hafa byggt á og byggt upp, bæði ræktað land og byggingar, og byggt upp þann kvóta og þá eign sem er hafa þeir stundum viljað kaupa jarðir sínar, og fengið, og mér finnst eðlilegt að þeir fái að kaupa þær jarðir á eðlilegu verði og þá miðað við það að þeir búi áfram á jörðunum.

Hins vegar er alveg rétt að þess eru dæmi að menn hafi keypt jarðir, selt frá þeim kvótann og hagnast á viðskiptunum.

Ég vil benda á að í frv. sem liggur fyrir þinginu og er til umfjöllunar í allshn., 253. mál, frv. til laga um fasteignakaup, er gerð tillaga í 25. gr. um að greiðslumark bújarðar teljist ekki til fylgifjár jarðarinnar. Þá er í rauninni verið að tala um að kvótinn verði metinn sérstaklega.