Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:18:50 (3699)

2002-01-29 15:18:50# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Enn er sala ríkisjarða og greiðslumark þeirra til umræðu hér í sölum Alþingis. Það er ekki að furða því mörgum blöskrar hvernig farið hefur verið með þessar eigur okkar og þær nánast gefnar í stað þess að þær séu seldar eftir almennum reglum og mati.

Mér hafa borist allmörg dæmi um það hvernig menn hafa makað krókinn á þessum gjafakaupum svo sem sagan af jörðinni í Fljótsdalnum sem seld var fyrir nokkrum árum á 800.000 kr., ári síðar seldi kaupandinn smáspildu úr jörðinni og fékk fyrir hana ríflega það sem hann keypti jörðina á árið áður.

En ég vil vera sanngjörn og tek því raunverulegt dæmi af jörð þar sem söluverðið er í efri kantinum, eða 4,3 milljónir --- hún er seld í tíð núv. hæstv. ráðherra. Þetta er jörðin Kaldbakur í Hrunamannahreppi í Árnessýslu, 13 km frá Flúðum, sem hæstv. landbrh. seldi ábúanda í mars árið 2000. Samkvæmt afsali er eftirfarandi selt: land jarðarinnar, 1.000 hektarar, og 28,7 hektarar ræktað land, fjós, hlaða, hesthús, fjárhús og veiðiréttur, en árlegar tekjur af veiði í Stóru-Laxá eru um 450 þús. kr. Ábúandinn eignast kvótann, 215 ærgildi, við kaupin. Mikil kostajörð samkvæmt jarðabók Árna Magnússonar og þau ummæli eru enn í fullu gildi. Útivistarparadís, góð hrossajörð og einstök til skógræktar samkvæmt auglýsingu frá fasteignasölu. Þetta selur hæstv. ráðherra á rúmar 4 millj. kr. Tæplega er veiðirétturinn mikils metinn þar. Ári síðar, í mars 2001, er jörðin auglýst á fasteignasölu, til sölu á 32 millj. með fullvirðisrétti. Bóndinn ákveður síðan að selja kvótann sérstaklega og fær fyrir hann 5 millj. kr. frá ríkinu, 1 millj. kr. meira en hann greiddi fyrir jörðina og kvótann, þessa kostajörð, og síðan er jörðin seld á 21 millj. Á einu ári hefur bóndinn því samkvæmt þessu hagnast um 22 millj. á þessum kaupum af ráðherranum, vel fimmfaldur hagnaður á einu ári. Það er alveg ljóst að breyta verður reglum og lögum um sölu ríkisjarða og hlunninda sem þeim fylgja, viðmið sem notað er í dag við mat á jörðum er ónothæft. Það verður að vera sambærilegt og hjá almennum fasteignasölum og metast víðtækara en við hefðbundinn landbúnað eins og nú er.