Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:21:32 (3700)

2002-01-29 15:21:32# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Vert er að halda hér til haga tilgangi þeirra ákvæða sem kveðið er á um í jarðalögunum en þar stendur í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda.`` Þetta er upphafið, herra forseti. Í 38. gr. laganna kveður svo á um ríkisjarðir og ábúendur á þeim. Og áfram er vert að hafa í huga að markmið laganna og þeirra aðgerða sem þar er gripið til er að tryggja áframhaldandi búsetu á jörðunum. Tryggja búsetu, líka á ríkisjörðunum. Og þær ráðstafanir sem ríkið gerir á þeim vettvangi eiga einmitt að taka mið af því.

Sala á jörðum til ábúenda er jú háð því að þeir hafi búið þar í a.m.k. 10 ár og búi þar með góðum hætti, og maður les í lögin að ætlast sé til þess þegar þeir fá jörðina keypta samkvæmt þessum skilmálum kaupi þeir hana til ábúðar enda stendur ,,til áframhaldandi ábúðar og nytja``, þ.e. til búsetu á jörðinni.

Þess vegna ber valdhafanum, herra forseti, sem í þessu tilfelli er landbrn. að huga mjög vel að þegar ríkisjarðir eru seldar:

1. Er ástæða til þess að selja ríkisjörðina? Þjónar það einhverjum sérstökum tilgangi, eða er þar kannski verið að tefla í tvísýnu hagsmunum almennings til lengri tíma?

2. Er verið að selja jörðina í raun samkvæmt þessari lagagrein til ábúðar eins og skýrt er kveðið á um?

Sama gildir þá einnig um framleiðsluréttinn á viðkomandi jörð, rétt sem er forsenda þess að hægt sé að búa á henni eins og ábúðarlög kveða á um, að ráðstöfun á honum verði þá einnig að fara eftir því að ætlunin sé að búa áfram á jörðinni, virðulegi forseti.