Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:26:10 (3702)

2002-01-29 15:26:10# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu sala á greiðslumarki ríkisjarða og hvaða aðferðir skuli viðhafðar þegar hún á sér stað.

Þegar ríkið er að selja eða úthluta svokölluðum gæðum verður það að gæta jafnræðisreglunnar en taka um leið tillit til þess að réttur einstaklinga sé ekki fyrir borð borinn. Þeir bændur sem hafa búið á ríkisjörðum og byggt upp gripahús og bústofn hafa skapað með því verðmæti sem ríkinu ber að taka fullt tillit til þegar þessir bændur vilja bregða búi eða standa að breytingum í búskaparháttum sínum. Öllum hlýtur að vera ljóst að þegar bóndi hefur lagt í miklar fjárfestingar í gripahúsum og stækkað þau og orðið að auka við bústofn til að standa straum að kostnaði við endurbætur og uppbyggingu hlýtur það að vera sanngirniskrafa að horft sé til þess erfiðis sem bóndinn hefur lagt í.

Þegar ríkið selur fullvirðisrétt eða aðrar eigur verður að gæta jafnræðis. Það er mjög eðlilegt að áður en sala fer fram á eigum ríkisins fái almenningur að vita um það. Við viljum líka fá að vita hve mikið ríkið fær fyrir þau fyrirtæki sem það hyggst selja nú um þessar mundir, ef því tekst að selja þau. Við viljum líka vita að þau séu til sölu. Þetta hlýtur að gilda um allar eigur ríkisins, jafnt smáar sem stórar, a.m.k. verður að haga þessum málum þannig að tortryggni skapist ekki, að reglum sé framfylgt og að þær séu gerðar sanngjarnar, þannig að deilur, úlfúð og jafnvel málaferli séu ekki á ferðinni þegar ríkið er að selja eða gefa eigur sínar eða leysa til sín verðmæti sem því ber lögum samkvæmt.

Ég ítreka það sem ég hef sagt hér, herra forseti, að ríkisvaldið beiti ávallt jafnræðisreglunni í samskiptum sínum við þegnana í smáu sem stóru.