Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:30:46 (3704)

2002-01-29 15:30:46# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Kannski er það aðeins ein ræða sem ég vil taka hér fyrir, þ.e. ræða hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég trúi því ekki að hún hafi viljandi verið sett hér fram með þeim ranga málflutningi og villandi upplýsingum sem gert var. Hér er verið að taka málefni einstaklings upp. Ásgeir Gestsson bjó allt sitt líf á Kaldbak, ól þar upp börn sín. Hann átti megnið af mannvirkjum, íbúðarhúsið, öll bestu útihúsin og ræktunina. Hann hafði lifað þar og starfað. Hann fékk jörðina metna af Ríkiskaupum á 4,3 milljónir. Síðan þegar hann selur eign sína og ákveður að hverfa, ekkjumaður, frá jörð sinni, þá selur hann í heildina á 26 milljónir. Lífsstarf hans er sem sé verðlagt á 21 eða 22 milljónir. Ég vil að það komi skýrt fram hér að málflutningur hv. þm. var fyrir neðan allar hellur. Það er mjög mikilvægt að þingmenn afli sér réttra upplýsinga.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum segja í lok þessarar umræðu að það liggur fyrir sem Ríkisendurskoðun hefur sagt, að þegar á heildina er litið eru þeir starfshættir sem tíðkaðir eru hjá jarðadeild landbrn. í samræmi við lög og þær reglur sem ráðuneytið hefur sett sér um sölu ríkisjarða. Þá er verið að fjalla um þann tíma sem ég hef starfað í landbrn. Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemd við verklag jarðadeildar við sölu ríkisjarða. Ljóst má vera að miklar breytingar hafa orðið á starfsemi deildarinnar frá því Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á jarðadeildinni 1998 og hefur hún í flestu lagað sig að tillögum um verklag sem þar eru gerðar. Síðan lýsir ríkisendurskoðandi hér fullu trausti á Ríkiskaup við að meta verðgildi ríkisins á jörðunum. Ég er því sáttur og ég held að flestir sem skilja vilja skilji þetta mál.

Vera kann að réttlæti sumra manna sé með þeim hætti sem sagt var um forðum, vont er þeirra ranglæti, en verra þeirra réttlæti.

Hæstv. forseti. Nú held ég að rétt sé að fara að horfa á handboltann.