Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:33:19 (3705)

2002-01-29 15:33:19# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), ÁRJ (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég verð eiginlega að koma hér upp og bera af mér sakir vegna orða hæstv. ráðherra, þar sem hann telur mig fara með rangt mál. Ég er hér með afsal hæstv. landbrh. vegna sölu á þessari jörð sem ég tók sem dæmi. Í þessu afsali stendur: Hinn seldi eignarhluti er land jarðarinnar. Hjá fasteignasölunni kemur í ljós að það er um 1.000 hektarar. Það er ræktun. Það voru 28 komma eitthvað hektarar. Það er fjós. Það er hlaða. Það er hesthús. Það er fjárhús og það er veiðiréttur. Og fyrir þetta eru greiddar 4 millj. Þetta eru bara staðreyndir. Ég er með þetta allt skjalfest. Þessu fylgja 215 ærgildi. Þau eru síðan seld ríkinu fyrir mun hærri upphæð en jörðin var seld ábúandanum. Ég er ekki að leggja mat á hvað er hvað hér. Ég er bara með þetta skjalfest fyrir framan mig.

Einnig kemur í ljós að veiðirétturinn er seldur og það kemur fram þegar jörðin er seld aftur að tekjur af veiði í Stóru-Laxá sem liggur við þessa jörð hafa verið 450.000 kr. á ári. Ég nefndi það í ræðu minni. Ári eftir að hæstv. ráðherra selur jörðina alla á 4 millj. er hún síðan seld á 21 millj. eftir að búið er að selja kvótann af henni. Meti nú hver sem vill.

Það getur vel verið að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að þarna séu um að ræða frekari hús, ég þori ekki að fara með það.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir hv. þm. á að fara ekki út í efnislega umræðu um málið.)

Ég biðst afsökunar. Ég verð að fá að bera af mér sakir, herra forseti, þegar ég er sökuð um að fara með rangt mál. Ég er bara að vitna í gögn um þessa jörð, gögn sem ég hef stimpluð og skjalfest fyrir framan mig.